Íslenski boltinn

Gulli: Ég hef alveg átt nokkrar ágætis markvörslur í sumar

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Gulli hefur verið góður í sumar.
Gulli hefur verið góður í sumar. vísir/ernir
Það var ekki að sjá í kvöld að Gunnleifur Gunnleifsson (Gulli), markmaður Blika, sé elsti leikmaður Pepsi-deildarinnar. Varði hann nokkrum sinnum frábærlega í síðari hálfleik í stöðunni 1-1 og á hann því stóran þátt í mikilvægum 4-1 stórsigri Breiðabliks á FH í kvöld.

 

Gulli gat því ekki verið annað en ánægður í leikslok þegar að blaðamaður Vísis náði tali af honum. 

 

„Það er geggjað að vinna frábært lið eins og FH 4-1. Þeir létu okkur heldur betur hafa fyrir þessu í kvöld, enda með gæðaleikmenn í öllum stöðum. En þetta var frábær frammistaða hjá grænklæddu strákunum og við verðskulduðum þennan sigur fyllilega. Við vissum að FH væru nýbúnir að spila erfiða evrópuleiki og að við gætum klárað þetta í seinni hálfleik,“ sagði Gulli.

 

Tók Gulli eftir því að leikmenn FH væru þreyttir eftir leiki þeirra í Evrópukeppninni?

 

„Já, mér fannst það. Mér fannst þeir ætla að reyna að knýja fram sigurmarkið og halda svo, en þeim tókst það sem betur fer ekki. FH vill að sjálfsögðu alltaf vinna, þeir sætta sig ekki við jafntefli, og þegar þeim tókst ekki að skora mark númer tvö fannst mér við ganga á lagið og hlaupa yfir þá, ” sagði Gulli.

 

Gulli varði tvívegis stórkostlega í síðari hálfleik frá Steven Lennon og hélt sínum mönnum inní leiknum. Voru þetta hans bestu markvörslur í sumar?

 

„Þótt þetta hafi kannski „lookað” vel hjá mér, þá voru þetta ekki mínar bestu markvörslur í sumar. Ég hef alveg átt nokkrar aðrar ágætar í sumar,” sagði Gulli að lokum og glotti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×