Lífið

Gullhringum stolið af Leoncie í Efstaleiti

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Leoncie er miður sín.
Leoncie er miður sín.
Söngkonan Leoncie birtir neyðarkall á Facebook-síðu sinni í dag en tveimur gullhringum var stolið af henni þegar hún var við tökur á jólalaginu sínu í höfuðstöðvum RÚV í Efstaleiti í gær. Hringarnir eru Leoncie afar kærir en þeir voru gjöf frá föður hennar heitnum.

Í færslunni á Facebook segir Leoncie að hringarnir hafi verið í búningsherbergi við hliðina á Stúdíó A og að margir aðrir tónlistarmenn hafi einnig notað herbergið. 

„Mér var sagt að hlaupa og skipta um föt á undir fimm mínútum fyrir jólalagið mitt af æðsta manni í RÚV,“ skrifar Leoncie. Hún grátbiður þann sem stal hringunum að skila þeim.

„Sá sem stal gullhringunum mínum tveimur: vinsamlegast skilið þeim. Þeir eru ættargripir og faðir minn heitinn gaf mér þá," skrifar tónlistarkonan. „Stórmarkaður er fullur af hlutum en enginn ætti að STELA þeim. Það er syndsamlegt af þjófi að gera,“ bætir hún við.

Hvetur hún þjófinn til að hringja í sig í síma 8546797 en hringarnir eru auðþekkjanlegir.

„Allir geta séð að ég er með þá í öllum tónlistarmyndböndunum mínum og á hulstrum geisladiskanna minna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×