Innlent

Guðni og Eliza funduðu með Danadrottningu í Amalíuborgarhöll

atli ísleifsson skrifar
Margrét Danadrottning, Guðni TH. Jóhannesson, Eliza Reid og Hinrik prins.
Margrét Danadrottning, Guðni TH. Jóhannesson, Eliza Reid og Hinrik prins. Vísir/EPA
Guðni Th. Jóhannesson forseti og Eliza Reid mættu til fundar við Margréti Þórhildi Danadrottningu og Hinriks prins í Amalíuborg í Kaupmannahöfn í morgun.

Um er að ræða fyrstu opinberu heimsókn forsetahjónanna til útlanda frá því að Guðni tók við embætti í sumar. Forsetahjónin munu dvelja í Amelíuborgarhöll á meðan á heimsókninni stendur, en henni lýkur að morgni næsta fimmtudags.

Eftir móttökuathöfnina í fóru forsetahjónin í Jónshús þar sem þau hittu forsvarsmenn hússins, ræddu við fulltrúa úr félagsstarfi Íslendinga í Kaupmannahöfn og skoðuðu sýningu um Jón Sigurðsson og Ingibjörgu Einarsdóttur, konu hans.

Síðar í dag munu forsetahjónin halfa í Kristjánsborgarhöll, aðsetur danska Þjóðþingsins, og eiga þar fund með Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra og sitja hádegisverð í boði hans. Þá á forseti einnig fund með forseta þingsins, Piu Kjærsgaard.

„Frá Kristjánsborgarhöll liggur leiðin í Konungsbókhlöðuna, Svarta demantinn, en þar verður dagskrá helguð handritum og fornsögum. Við það tækifæri afhendir forseti veglega bókagjöf, 700 eintök af nýrri heildarútgáfu Íslendingasagna í danskri þýðingu en það eru allmörg íslensk fyrirtæki sem standa að baki bókagjöfinni. Margrét Danadrottning verður viðstödd þessa dagskrá auk annarra gesta. Um kvöldið býður drottningin forseta og fylgdarliði til hátíðarkvöldverðar í Amalíuborgarhöll,“ að því erf ram kemur í tilkynningu frá skrifstofu forseta um dagskrá ferðarinnar.

Vísir og Stöð 2 mun sýna beint frá heimsókn forsetahjónanna til Amalíuborgarhallar síðar í dag og hefst útsending klukkan 18:10.

Vísir/Heimir Már Pétursson
Bíllinn sem forsetahjónin mætti í kallast Stóra kórónan.Vísir/Heimir Már Pétursson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×