Handbolti

Guðni fór hamförum í frábærum sigri nýliðanna á ÍBV

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðni Ingvarsson skoraði þrettán mörk í kvöld.
Guðni Ingvarsson skoraði þrettán mörk í kvöld. vísir/eyþór
Nýliðar Selfoss gerðu sér lítið fyrir og unnu rándýrt og frábærlega vel mannað lið ÍBV, 38-32, í níundu umferð Olís-deildar karla í handbolta í kvöld.

Selfoss var fimm mörkum yfir í hálfleik, 20-15, og náði mest níu marka forskoti í seinni hálfleik 28-19, en innbyrti á endanum hrikalega sterkan sigur.

Línumaðurinn Guðni Ingvarsson fór á kostum í leiknum en hann skoraði þrettán mörk. Einar Sverrisson bætti við átta og Elvar Örn Jónsson skoraði sex fyrir heimamenn.

Theodór Sigurbjörnsson var markahæstur gestanna úr Eyjum með þrettán mörk en Grétar Þór Eyþórsson skoraði sex mörk og Dagur Arnarsson skoraði fimm mörk.

Fram vann svo góðan sigur á nýliðum Stjörnunnar sem hafa byrjað vel í deildinni og komið skemmtilega á óvart. Fram hafði fjögurra marka sigur, 31-27.

Valdimar Sigurðsson skoraði sex mörk fyrir Fram líkt og Andri Þór Helgason en Ari Magnús Þorgeirsson var markahæstur hjá Stjörnunni með níu mörk.

Selfoss komst með sigrinum upp fyrir ÍBV en liðið er með tíu stig en Eyjamenn níu. Fram er komið í níu stig líkt og ÍBV en Stjarnan er með átta stig.

Afturelding trónir á toppnum með 16 stig og hefur sex stiga forskot á næsta lið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×