Fótbolti

Guðmundur Þórarins: Verð fljótur að ná tökum á dönskunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur mun leika í rauðu næstu árin.
Guðmundur mun leika í rauðu næstu árin. facebook-síða nordsjælland
Guðmundur Þórarinsson er ánægður með vistaskiptin frá Sarpsborg 08 í Noregi til FC Nordsjælland, en Selfyssingurinn hefur skrifað undir þriggja og hálfs árs samning við danska liðið.

„Ég er ánægður að vera kominn hingað og hlakka mikið til að byrja,“ sagði Guðmundur í samtali við heimasíðu Nordsjælland.

„Undanfarin tvö ár hef ég spilað með Sarpsborg í Noregi sem er mjög góður klúbbur og ég hef þroskast mikið sem leikmaður og persóna þar. Ég átti góð ár í Noregi og er reiðubúinn að taka næsta skref á ferlinum,“ sagði Guðmundur sem heyrði góða hluti um Nordsjælland frá Rúnari Alex Rúnarssyni, varamarkverði liðsins og félaga hans í U21-árs landsliði Íslands.

„Ég þekkti Nordsjælland nokkuð vel. Vinur minn, Rúnar Alex, spilar hér og ég spjallaði við hann um félagið og hann hafði aðeins jákvæða hluti um það að segja.

„Ég hef mikla trú á sjálfum mér en er jafnframt meðvitaður um að ég þarf að bæta ýmislegt í leik mínum. Þess vegna ákvað ég að fara til Nordsjælland. Þetta er flott félag með góða þjálfara og hér er allt til alls til að þroskast og þróast sem leikmaður,“ sagði Guðmundur en þjálfari Nordsjælland er landi hans, Ólafur H. Kristjánsson sem tók við danska liðinu síðasta sumar.

Guðmundur býst við að vera fljótur að ná tökum á dönskunni.

„Ég geri ráð fyrir að vera fljótur að læra tungumálið þar sem ég kann þegar norsku og lærði dönsku í skóla. Ekki vera feiminn við að tala dönsku við mig, ég ætti að skilja hana,“ sagði Selfyssingurinn söngelski að lokum en viðtalið í heild sinni má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×