Fótbolti

Guðmundur Steinn skoraði tvö mörk í bikarsigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Steinn Hafsteinsson.
Guðmundur Steinn Hafsteinsson. Vísir/Andri Marinó
Guðmundur Steinn Hafsteinsson var öðrum fremur maðurinn á bak við það að C-deildarliðið Notodden komst áfram í norsku bikarkeppninni í dag.

Guðmundur Steinn, sem lék með Fram á síðustu leiktíð, skoraði tvö mörk í 3-1 sigri Notodden á Jerv en leikurinn fór fram á heimavelli Notodden. Notodden er þar með komið í 32 liða úrslit keppninnar.

Jerv komst í 1-0 með marki strax á 3. mínútu leiksins en Martin Brekke jafnaði metin á 33. mínútu. Íslenski framherjinn gerði síðan út um leikinn með tveimur mörkum.

Guðmundur Steinn skoraði fyrra mark sitt í uppbótartíma fyrri hálfleiksins með skalla í tómt markið eftir skógahlaup markvarðarins.

Guðmundur Steinn skoraði annað markið sitt á 61. mínútu eftir laglegt þríhyrningarspil með samherja sem endaði með að hann sólaði markvörðinn og skoraði.

Guðmundur Steinn fékk síðan heiðursskiptingu á 85. mínútu leiksins við mikinn fögnuðu stuðningsmanna Notodden-liðsins.

Guðmundur Steinn skoraði einnig í síðasta deildarleik eftir að hafa komið inná sem varamaður en Notodden tapaði þá 3-2 á heimavelli á móti Moss.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×