Handbolti

Guðmundur spilar aftur við Frakka um gullið | Danir unnu í framlengingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson. Vísir/Anton
Guðmundur Guðmundsson kom danska landsliðinu í nótt í úrslitaleikinn í handboltakeppni karla á Ólympíuleikunum í Ríó. Þetta er annað skiptið á síðustu þremur leikjum sem liðið hans Guðmundar spilar um Ólympíugullið.

Danir unnu eins marks sigur á Pólverjum í framlengdum undanúrslitaleik, 29-28, og mæta Frökkum í úrslitaleiknum á sunnudaginn. Það voru einmitt Frakkar sem unnu Ísland í úrslitaleiknum á ÓL í Peking 2008.

Pólverjar mæta á undan Degi Sigurðssyni og lærisveinum hans í þýska landsliðinu í leiknum um bronsið en Þjóðverjar töpuðu með einu marki á móti Frökkum í fyrri undanúrslitaleiknum.

Mikkel Hansen skoraði 10 mörk í leiknum og Niklas Landin varði vel á mikilvægum augnablikum. Morten Olsen átti líka fínan leik og skoraði 7 mörk.

Guðmundur vann þarna sigur á Talant Duyshebaev, þjálfara Pólverja, og leiddist það ekki enda hafa þeir ekki verið bestu vinir.

Danir lögðu gruninn að sigrinum í framlengingunni með góðum fyrri hálfleik þar sem þeir komust þremur mörkum yfir og komust upp með það að skora ekki í seinni hálfleik hennar.

Danir byrjuðu mjög vel og skoruðu þrjú fyrstu mörkin í leiknum. Guðmundur Guðmundsson tók leikhlé eftir að Pólverjum tókst að jafna í 9-9 og í kjölfarið komust Danir tvisvar fjórum mörkum yfir, í 14-10 og 15-11.

Pólverjar svöruðu þá með því að skora fjögur mörk í röð og jafna metin í 15-15. Kasper Söndergaard skoraði hinsvegar lokamark hálfleiksins og sá til þess að Danir voru einu marki yfir í hálfleik, 16-15.

Piotr Wyszomirski kom inn í mark Pólverja um miðjan fyrri hálfleik og átti heldur betur eftir að reynast danska liðinu erfiður. Hann lokaði markinu í upphafi seinni hálfleiks og varði síðan jafnt og þétt út allan hálfleikinn.

Piotr Wyszomirski varði 6 af fyrstu 9 skotum Dana í seinni hálfleik, Pólverjar unnu upphafskafla hálfleiksins 4-1 og komust í 19-17. Danir svöruðu en leikurinn var annars jafn allan seinni hálfleikinn og liðin skiptust á því að hafa forystuna.

Rene Toft Hansen fiskaði víti 39 sekúndum fyrir leikslok og Mikkel Hansen kom Dönum þá einu marki yfir, 25-24. Pólverjar fengu lokasóknina og hornamaðurinn Michal Daszek náði að jafna með mögnuðu langskoti. Það varð því að framlengja leikinn.

Danir skoruðu þrjú fyrstu mörk framlengingarinnar á saman tíma og Niklas Landin var í stuði í markinu. Mikkel Hansen kom Dönum síðan í 29-26 fyrir lok fyrri hálfleiks framlengingarinnar en hann var þá að skora sitt tíunda mark í leiknum.

Pólverjar skoruðu bæði mörkin í seinni hálfleik framlengingarinnar en það var ekki nóg og þeir spila því um bronsið við Dag Sigurðsson og lærisveina hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×