Handbolti

Guðmundur og Dagur mætast á sjötta leikdegi í Katar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðmundur Þórður Guðmundsson og Dagur Sigurðsson mæta með Dani og Þjóðverja á HM.
Guðmundur Þórður Guðmundsson og Dagur Sigurðsson mæta með Dani og Þjóðverja á HM. vísir/getty/samsett
Búið er að gefa út leikjaplan HM 2015 í handbolta þar sem Ísland verður ekki á meðal þátttakenda eftir tap gegn Bosníu í umspilinu fyrr í sumar.

Þrjú lið verða með íslenska þjálfara á mótinu, en Guðmundur Þórður Guðmundsson tók við Dönum fyrr á árinu, DagurSigurðsson var nýverið ráðinn þjálfari Þýskalands og þá hefur Patrekur Jóhannesson stýrt Austurríki undanfarin tvö ár.

Einn af stórleikjum undankeppninnar er viðureign Dana og Þjóðverja í D-riðli, en hann fer fram á sjötta leikdegi HM í þriðju umferð riðlakeppninnar.

Þar mætast þeir á ný Guðmundur Guðmundsson og Dagur Sigurðsson, en þeir hafa tekist á með lið Rhein-Neckar Löwen og Füchse Berlín í þýsku 1. deildinni undanfarin ár.

Guðmundur stýrði eins og allir vita íslenska landsliðinu til verðlauna í fyrsta skipti á ÓL í Peking, en hann var einnig þjálfari liðsins á ÓL í Aþenu 2004 þar sem Dagur, þáverandi landsliðsfyrirliði, spilaði á sínu næstsíðasta stórmóti undir stjórn Guðmundar.

D-riðilinn er nokkuð strembinn, en þar má einnig finna sterkt lið Póllands, Argentínu, Rússland og Barein. Fjögur lið úr hverjum riðli komast áfram í 16 liða úrslit.

Patrekur Jóhannesson og lærisveinar hans eru í B-riðli með Íslandsbönunum frá Bosníu, Krótum, Makedóníu, Túnis og Íran.

Upphafsleikur HM 2015 verður viðureign heimamanna í Katar og Brasilíu 15. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×