Handbolti

Guðmundur í biðstöðu hjá Dönunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Frá vinstri eru Christensen, Guðmundur og Wilbek.
Frá vinstri eru Christensen, Guðmundur og Wilbek. Vísir/Getty
Samningur Guðmundar Guðmundssonar við danska handknattleikssambandið rennur út næsta sumar og hafa viðræður um nýjan samning dregist á langinn.

Guðmundur gerði danska karlalandsliðið í handbolta að Ólympíumeisturum í sumar. Skömmu eftir sigurinn í Ríó kom hins vegar í ljós að Ulrik Wilbek, íþróttastjóri danska sambandsins og fyrrverandi landsliðsþjálfari, fundaði með leikmönnum á meðan leikunum stóð um stöðu Guðmundar.

Sjá einnig: Valdabarátta í danska landsliðinu: Spurði hvort ætti að reka Guðmund daginn eftir úrslitaleikinn

Málið vakti mikla athygli í dönskum fjölmiðlum en margir þeirra túlkuðu málið sem svo að Wilbek hefði viljað losna við Guðmund úr starfi á meðan leikunum stóð.

Stuttu síðar ákvað Wilbek að segja upp starfi sínu hjá danska handknattleikssambandinu sem hefur ekki enn gengið frá ráðningu nýs íþróttastjóra.

Morten Stig Christensen, framkvæmdastjóri þess, segir í samtali við danska fjölmiðla að hann vilji ekki tjá sig um stöðuna á samningsviðræðum við Guðmund í fjölmiðlum.

Hann sagði þó að mögulegt væri að samningsmál Guðmundar myndi lenda á borði nýs íþróttastjóra en það færi alfarið eftir því hversu mikinn tíma það myndi taka að finna rétta manninn í starfið.

Sjálfur segist Guðmundur vera hinn rólegasti yfir öllu saman.

„Ég hef rætt við Morten Stig Christensen og við ætlum að funda um framtíðina annað hvort í lok október eða í byrjun nóvember,“ sagði Guðmundur í samtali við TV2 í Danmörku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×