Handbolti

Guðmundur Hólmar í eins leiks bann | Missir af leiknum gegn ÍBV

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Hólmar er í lykilhlutverki hjá Val.
Guðmundur Hólmar er í lykilhlutverki hjá Val. vísir/ernir
Guðmundur Hólmar Helgason, fyrirliði Vals í Olís-deild karla, var á fundi Aganefndar HSÍ í gær úrskurðaður í eins leiks bann vegna rauða spjaldsins sem hann fékk í leiknum gegn FH í undanúrslitum Coca-Cola bikarsins á föstudaginn.

Hann verður í leikbanni þegar Valsmenn taka á móti ÍBV í 21. umferð Olís-deildarinnar á morgun.

Guðmundur fékk að líta rauða spjaldið fyrir brot á Benedikt Reyni Kristinssyni, hornamanni FH, á lokasekúndum fyrri framlengingarinnar, andartaki áður en Ísak Rafnsson jafnaði metin í 38-38 og tryggði Hafnfirðingum aðra framlengingu.

FH fór að lokum með sigur af hólmi, 40-44, og tryggði sér sæti í úrslitaleiknum. Þar urðu Hafnfirðingar að sætta við eins marks tap, 23-22, fyrir ÍBV.

Guðmundur, sem kom til Vals frá Akureyri 2013, hefur skorað 74 mörk í 17 deildarleikjum með Hlíðarendaliðinu í vetur. Valsmenn sitja í toppsæti Olís-deildarinnar með 32 stig eftir 20 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×