Handbolti

Guðmundur getur ekki valið Rasmus Lauge í Ríó-hópinn sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rasmus Lauge í leik með danska landsliðinu.
Rasmus Lauge í leik með danska landsliðinu. Vísir/Getty
Meiðsli Rasmus Lauge í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í handbolta eru ekki aðeins slæmar fréttir fyrir þýska liðið Flensburg heldur einnig fyrir danska landsliðið.

Nú er orðið ljóst að meiðsli leikstjórnandans Rasmus Lauge eru það alvarleg að hann verður frá keppni í hálft ár.

Rasmus Lauge reif liðþófa í hné og þarf að fara í aðgerð. Hann skrifaði sjálfur inn á Twitter að hann búist við því að vera frá keppni í sex mánuði.

Guðmundur Guðmundsson getur því ekki valið þennan öfluga leikmann í danska landsliðshópinn á Ólympíuleikunum í Ríó í Brasilíu en það er spurning hversu slæmar fréttir þær fréttir eru fyrir Guðmund. Það er líka hægt að líta svo á að þetta auðveldi honum valið á hópnum.

Guðmundur notaði nefnilega Rasmus Lauge lítið í síðustu verkefnum og hlaut nokkra gagnrýni fyrir í dönskum fjölmiðlum.

Rasmus Lauge lítur á jákvæðu hliðarnar þrátt fyrir þetta áfall og segir sjálfur á Twitter að það sé gott að þessi nýju meiðsli hans séu á hans góða hné. Hann lofar líka að koma enn sterkari til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×