Handbolti

Guðmundur er örugglega ekki búinn að gleyma síðasta leik á móti Svíum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins.
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins. Vísir/Getty
Nágrannaþjóðirnar Danmörk og Svíþjóð mætast í kvöld á heimsmeistaramótinu í handbolta en bæði lið hafa byrjað mótið mjög vel.

Það sem gerir þennan leik ennþá merkilegri fyrir okkur Íslendinga er að þarna mætast íslensku þjálfararnir Guðmundur Guðmundsson og Kristján Andrésson í fyrsta sinn.

Leikurinn hefst klukkan 19.45 í kvöld en það lítur út fyrir að þessi ágæti leikur geti verið óopinber úrslitaleikur D-riðilsins.

Kristján Andrésson tók við sænska liðinu í september og liðið hefur unnið sjö fyrstu leikina undir hans stjórn þar af leiki sína á HM í Frakklandi með 17,5 mörkum að meðaltali.

Danir mættu Svíum síðast á EM í Póllandi fyrir ári síðan og endaði sá leikur með 28-28 jafntefli. Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðið líka á því móti en þeir Staffon Olsson og Ola Lindgren voru þá með Svíana.

Danir misstu þá niður fimm marka forystu og leyfðu Svíum að tryggja sér stig með því að þrjú síðustu mörk leiksins.

Danir voru 15-10 yfir þegar lítið var til hálfleiks en þrjú sænsk mörk í röð komu muninum niður í 15-13 fyrir hálfleik.

Danir voru síðan 28-25 yfir þegar 130 sekúndur voru til leiksloka en það dugði þeim ekki til sigurs.

Svíar skoruðu fyrst eftir að hafa tekið sóknarfrákast, svo úr hraðaupphlaupi eftir að hafa stolið boltanum og loks jöfnunarmark átta sekúndum fyrir leikslok. Mattias Zachrisson skoraði jöfnunarmarkið úr hægra horninu.

Guðmundur Guðmundsson er örugglega ekki búinn að gleyma þessum síðasta leik sínum á móti Svíum.  Áhugasamir geta skoðað tölfræðina úr honum hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×