Handbolti

Guðmundur B. Ólafsson: Ég þarf ekki að tala Aron Pálmarsson til

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Vísir/Stefán
Aron Pálmarsson verður með íslenska landsliðinu á HM í handbolta í Katar þrátt fyrir ummæli í vikunni um að hann nennti ekki að koma inn á HM sem einhver varaþjóð. Formaður HSÍ hefur engar áhyggjur af því að Aron verði ekki klár í verkefnið en Ísland fékk í dag sæti á HM í Katar í janúar.

„Nei, ég þarf ekki að tala Aron Pálmarsson til. Hann kemur örugglega fullur af eldmóði í þessa keppni ef að ég þekki minn mann rétt. Ég hef ekki áhyggjur af því að þeir mæti ekki vel stemmdir í þetta drengirnir," sagði Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, um þessi ummæli Arons Pálmarsson í viðtali við Morgunblaðið í vikunni.

„Menn voru kannski orðnir þreyttir á umræðunni og spurningum um það. Ég er alveg sannfærður um það að mínir menn muni mæta fullir sjálfstraust í þessa keppni og ætli sér að sanna það fyrir sjálfum sér og þjóðinni að þeir áttu heima þarna," sagði Guðmundur en hvað með aðdraganda mótsins.

„Við vorum búnir að stilla upp æfingaleik við Þjóðverja og ég geri ráð fyrir því að við höldum því," sagði Guðmundur um hvaða breytingar fréttir dagsins muni hafi á framhaldið hjá íslenska landsliðinu.

„Síðan verðum við bara að sjá til um undirbúninginn fyrir keppnina og þurfum að hugsa það eitthvað aftur," sagði Guðmundur en það verður rætt meira við Guðmund í Fréttablaðinu á morgun.


Tengdar fréttir

Ísland verður með á HM í Katar | Ísland og Sádí-Arabía fá lausu sætin

Íslenska handboltalandsliðið verður með á HM í handbolta í Katar í janúar eftir allt saman en þessi óvænta ákvörðun var tekin á fundi Framkvæmdastjórnar IHF í Þýskalandi í dag samkvæmt óstaðfestum heimildum íþróttadeildar 365 . Íslenska landsliðið fær sæti í C-riðli með Svíum og Frökkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×