Körfubolti

Guðmundur: Tapið sveið mjög mikið

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Guðmundur var frábær í kvöld.
Guðmundur var frábær í kvöld. vísir/bára
Guðmundur Jónsson átti frábæran leik fyrir Keflvíkinga í kvöld er hann og hans menn lögðu Hauka í Schenker höllinni í Hafnarfirðinum, 77-80.



„Mér fannst við koma til baka eftir tap í síðasta leik sem sveið mjög mikið. Skal viðurkenna það,“ sagði Guðmundur og vísaði þar í tap Keflvíkinga þar sem Kári Jónsson skoraði ótrúlega flautukörfu frá hinum enda vallarins sem tryggði Haukum sigurinn.



„Við gátum tekið fullt af góðum hlutum úr síðasta leik. Sérstaklega fannst mér þeir eiga engin svör fyrstu þrjá leikhlutana í síðasta leik,“ sagði Guðmundur sem sagði sig og sína menn hafa mætti grimmir í kvöld.



„Við vorum staðráðnir að koma hingað og láta finna fyrir okkur. Við leggjumst ekkert niður fyrir þeim þó staðan sé 2-0.“



Keflavík er eina liðið sem hefur unnið Hauka hér í Hafnarfirðinum í vetur og það hafa þeir gert tvisvar, hvorki meira né minna. En hvernig vinnur maður þetta Hauka lið?



„Kári Jónsson og Paul Jones eru eiginlega bara mótórinn í liðinu. Ef við látum þá hafa fyrir hlutunum þá eru Haukar í vandræðum.“



Guðmundur varð að horfa á lokamínútur leiksins af bekknum en hann fór út af er hann nældi í sína 5. villu er um fjórar mínútur voru eftir.



„Þetta er úrslitakeppnin. Stundum fær maður óþarfa villur á sig og það var rosalega erfitt að sitja á bekknum á lokamínútunum í báðum leikjum. Finnst það erfiðara en að spila inn á vellinum.“



En kemur ekkert til greina að fara varlega?



„Maður fer bara alla leið í svona leik. Það er bara það eða ekki neitt. Ég er búin að spila svona síðan ég byrjaði að spila körfubolta. Ég er ekkert að fara að breytast núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×