Innlent

Guðmundar- og Geirfinnsmálin: Heimila endurupptöku máls Tryggva Rúnars

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Alls voru sex sakfelldir fyrir aðild að hvarfi Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar.
Alls voru sex sakfelldir fyrir aðild að hvarfi Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar. vísir
Endurupptökunefnd í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum svokölluðu hefur ákveðið að mál Tryggva Rúnars Leifssonar verði tekið til meðferðar fyrir dómstólum á ný. Tryggvi Rúnar hlaut 13 ára fangelsisdóm árið 1980 fyrir morðið á Guðmundi Einarssyni, sem hvarf í janúar 1974. RÚV greinir frá.

Nefndin hyggst birta niðurstöðu sína á vef endurupptökunefndar klukkan tvö í dag, en hún hefur tekið sér þrjú ár að komast að niðurstöðu.

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Erlu Bolladóttur og Guðjóns Skarphéðinssonar, hefur ekki viljað tjá sig um niðurstöðu nefndarinnar, en hann er bundinn trúnaði í málinu. Hann segist hins vegar geta rætt málin á almennum nótum, í samtali við fréttastofu.

„Ef að endurupptökunefnd kemst að þeirri niðurstöðu að það skuli taka aftur upp eitt eða fleiri mál, þá gefur ákæruvaldið út sömu ákæru og 1977 og rekur málið eingöngu fyrir Hæstarétti,“ segir Ragnar en úrskurður verður sérstaklega í máli hvers sakbornings fyrir sig.

„Þar þarf ákæruvaldið að sanna sekt sakborninganna. Hins vegar getur ákæruvaldið einnig gert þá kröfu að menn verði sýknaðir ef að endurupptaka verður heimiluð,“ bætir Ragnar við.  Aðspurður segist hann ekki hafa ákveðið næstu skref með skjólstæðingum sínum.

Alls voru sex sakfelldir fyrir aðild að hvarfi Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar. Tveir sakborninganna, Erla Bolladóttir og Guðjón Skarphéðinsson, óskuðu eftir endurupptöku málsins en í fyrra barst endurupptökunefnd ábendingar sem gætu hafa varpað ljósi á málið.

Tryggvi Rúnar Leifsson lést árið 2009.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×