Fótbolti

Guðmunda Brynja kom Klepp á bragðið | Gunnhildur Yrsa með sjálfsmark

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmunda er komin á blað í Noregi.
Guðmunda er komin á blað í Noregi. vísir/stefán
Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði sitt fyrsta mark fyrir Klepp þegar liðið bar 1-2 sigurorð af Sandviken í norsku 1. deildinni í fótbolta í dag.

Guðmunda kom Klepp yfir strax á 3. mínútu en mark Selfyssingsins var það eina í fyrri hálfleik. Susanne Vistnes tvöfaldaði svo forystu Klepp áður en Sofie Skjelsted Jensen minnkaði muninn fyrir Sandviken.

Guðmunda er á láni hjá Klepp frá Selfossi en hún snýr aftur til uppeldisfélagsins í byrjun næsta mánaðar, áður en Pepsi-deildin hefst 11. maí.

Jón Páll Pálmason þjálfar lið Klepp sem er í 8. sæti deildarinnar með sex stig eftir fimm leiki.

Það gekk ekki jafn vel hjá Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur og liði hennar Stabæk í toppslagnum gegn Lilleström.

Lilleström, sem vann tvöfalt í fyrra, komst yfir á 36. mínútu og Gunnhildur varð svo fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark 18 mínútum fyrir leikslok. Lokatölur 2-0, Lilleström í vil.

Þetta var fyrsta tap Stabæk á tímabilinu en liðið er með 12 stig í 2. sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir Lilleström.


Tengdar fréttir

Fjórði sigur Avaldsnes í fyrstu fimm umferðunum

Hólmfríður Magnúsdóttir og Þórunn Helga Jónsdóttir voru báðar í byrjunarliði Avaldsnes sem vann 0-2 sigur á Trondheims-Örn í norsku 1. deildinni í fótbolta í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×