Handbolti

Guðjón Valur í úrslit annað árið í röð

Guðjón Valur fagnar hér einu af 5 mörkum sínum í leiknum.
Guðjón Valur fagnar hér einu af 5 mörkum sínum í leiknum. vísir/getty
Guðjón Valur Sigurðsson og félagar hans í Barcelona unnu sannfærandi sigur á Kielce, 33-28, í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu. Þetta er annað árið í röð sem Guðjón Valur leikur til úrslita í Meistaradeildinni.

Barcelona hafði yfirhöndina í fyrri hálfleik en aldrei var langt í pólsku meistarana. Varnarleikur Barcelona var gríðarlega sterkur og leikmenn Barcelona voru duglegir við að sækja hratt á Kielce þegar liðið vann boltann.

Staðan í hálfleik var 16-14 fyrir Barcelona. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik og átti mikinn þátt í sóknaruppbyggingu Börsunga. Kannski engin furða þar sem hraður sóknarleikur hentar landsliðsfyrirliðanum einstaklega vel.

Barcelona virtist ætla að stinga af í upphafi síðari hálfleiks. Liðið skoraði þrjú fyrstu mörk síðari hálfleiks, komst í 19-14, áður en Kielce vaknaði til lífsins.

Næstu fjögur mörk voru pólsk og þau komi öll á tveimur mínútum. Værukærð í sóknarleik Barcelona varð til þess að Kielce komst aftur inn í leikinn. Spánarmeistararnir köstuðu boltanum frá sér trekk í trekk.

Xavier Pascual, þjálfari Barcelona, tók leikhlé í þeirri tilraun að vekja sína menn til lífsins. Daniel Saric kom í mark Barcelona um miðjan síðari hálfleik og hann lagði grunninn að sigri Barcelona í þessum leik.

Svo fór að Barcelona vann 5 marka sigur, 33-28, og Guðjón Valur skoraði 5 mörk. Guðjón Valur er því kominn í úrslit Meistaradeildar Evrópu með Barcelona en það kemur í ljós síðar í dag hvort mótherjinn verður Kiel eða Veszprem.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×