Handbolti

Guðjón Valur: Ég ætla ekki að vera með neina niðurrifsstarfsemi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Katar skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson með félögum sínum í íslenska landsliðiunu eftir leik í gær.
Guðjón Valur Sigurðsson með félögum sínum í íslenska landsliðiunu eftir leik í gær. Vísir/Eva Björk
Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, sagðist vera stoltur af sínum mönnum fyrir frammistöðuna á HM í handbolta, þó svo að niðurstaðan hafi ekki verið eftir óskum manna.

„Ég ætla ekki að vera með neina niðurrifsstarfsemi. Ég er mjög ánægður með strákana og þeirra vinnu – þeir voru mjög virkir á öllum fundum og vildu gera sitt allra besta. Það er ekki nokkur spurning um það,“ segir hann. „En auðvitað vildum við meira.“

Hann segir að danska liðið hafi einfaldlega verið betra gegn því íslenska í gær. „Við vorum að spila við svakalegan múr sem okkur reyndist erfitt að brjóta niður,“ segir Guðjón Valur.

„Ef við horfum blákalt á málin þá erum við ekki í hópi fimm eða átta bestu liða heimsins í dag. En mikið rosalega vona ég að við komumst þangað aftur.“

Hann segir allt hægt í íþróttum og hefur trú á því að Ísland geti aftur náð í allra fremstu röð, þrátt fyrir áföllin sem dundu yfir liðið á þessu móti.

„Þá hugsar maður sig vissulega um en þannig er líf íþróttamannsins. Heilt yfir fannst mér við komast ágætlega frá mótinu en við fengum Dani í 16-liða úrslitum. Og það var helvíti erfitt.“


Tengdar fréttir

Snorri: Mótið er vonbrigði

Snorri Steinn Guðjónsson var svekktur með tapið gegn Dönum. Hann segir að liðið hafi ekki spilað vel í mótinu og vonar að Íslendingur verði heimsmeistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×