Handbolti

Guðjón: Mjög jákvæður á framhaldið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
„Það er auðvitað leiðinlegt að þetta sé búið en ég er ótrulega ánægður og stoltur af strákunum,“ segir landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson eftir tapið gegn Frökkum í kvöld.

„Það var frábært hvernig við spiluðum fyrri hálfleikinn og hefur vonandi góð fyrirheit um framhaldið. Auðvitað vildum við komast lengra en þetta var erfitt í dag enda að spila við frábært lið. Mér fannst æðislegt að sjá stemninguna og trúna í liðinu. Menn fá stóran plús fyrir það.“

Guðjón Valur vildi ekkert tjá sig um frammistöðu dómaranna sem margir voru ósáttir við. Hann vildi frekar tala um liðið.

„Við vorum í gamla, góða gerum okkar besta. Menn skildu allt eftir á vellinum og sáu ekki eftir neinu er þeir gengu út af,“ segir Guðjón sem sló landsliðsmet í þessari ferð enda hefur maðurinn átt einstakan feril. Hann er ekki búinn að fá nóg.

„Ég hef oft sagt það að ég er ekki að hætta í handbolta. Ef landsliðsþjálfarinn telur sig hafa not fyrir mig þá er ég klár. Ef ekki þá skil ég það alveg fullkomlega. Það er gangur lífsins og íþróttamannsins. Ég hef alltaf sagt að aldur skipti ekki máli heldur geta. Ég er alltaf stoltur að spila fyrir landsliðið og fæ enn gæsahúð í þjóðsöngnum eftir alla þessa leiki.“

Það hefur mikið gengið á hjá liðinu á þessu móti en þó verið stígandi og liðið aldrei gefið eftir.

„Mér finnst við vera að taka lítil skref í byrjun. Það er eðlilegt með nýjum þjálfara. Við erum alltaf að verða betri í því sem að hann leggur fyrir okkur. Það er eðlilegt að það taki tíma. Vandamálið er að við hittumst sjaldan en áttum góðan mánuð núna. Það er eðlilegt að nýliðar eða menn í nýjum hlutverkum þurfi tíma til þess að aðlagast.

„Vonandi gefur þetta góð fyrirheit um framhaldið og við þurfum að taka það jákvæða úr þessu. Við þurfum að vilja spila stærstu leikina gegn bestu liðunum. Ég er mjög jákvæður á framhaldið og finnst við taka skref í rétta átt.“


Tengdar fréttir

Ólafur: Var erfitt að gera leik úr þessu

Ólafur Guðmundsson spilaði vel gegn Frökkum í kvöld en það var ekki nóg þegar strákarnir okkar féllu úr leik í 16-liða úrslitum á HM í handbolta. Frakkland vann að lokum sex marka sigur, 31-25.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×