Innlent

Guðfríður sakar forsætisráðherra um hótanir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir færði rök fyrir ákvörðun sína í gær.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir færði rök fyrir ákvörðun sína í gær.
„Svo virðist sem lærdómurinn sem margir hafa kosið að draga af hruninu sé í besta falli að skapa ný formerki fyrir sömu vinnubrögðin," sagði Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG, þegar hún rökstuddi þá ákvörðun sína í gær að greiða atkvæði gegn tillögu um að vísa frá tillögu Bjarna Benediktssonar um að fella málshöfðun Alþingis gegn Geir Haarde niður.

Guðfríður talaði um að menn þyrftu að gera upp hrunið og ástunda ný vinnubrögð. Það yrði ekki gert með því að ákæra einn mann. „Menn tala um siðbót en stunda siðleysi. Við höfum litlu sem engu breytt sem varðar vinnubrögð okkar og nálgun á hin pólitísku viðfangsefni. „Hvað skyldu ákærendur hér á Alþingi segja um okkar eigin vinnubrögð, skyldu þau standast skoðun?" spurði Guðfríður. Hún sagðist telja að vinnubrögð Alþingis í dag stæðust enga skoðun „Ég sé ekki í verki lærdóm okkar af hruninu!"

Og Guðfríður sakaði suma þá um hræsni sem vildu halda málshöfðuninni gegn Geir til streitu. „Þegar horft er til þess að ráðherra í núverandi ríkissstjórn sem jafnframt var ráðherra í hrunstjórninni berst með hótunum fyrir því að koma í veg fyrir að þessi tillaga fái eðlilega þinglega meðferð. Það er eins og allt sé nú gleymt og ég spyr: Er það rétt að þurrka út úr sögulegri vitund okkar að núverandi forsætisráðherra sat í ráðherranefnd um ríkisfjármál í ríkisstjórn Geirs Haarde í aðdraganda hrunsins, á þeim tíma sem ákært er fyrir?"

Þá benti Guðfríður á að aðrir samráðherrar hrunstjórnarinnar væru í núverandi ríkisstjórn, enn aðrir í feitum embættum og við trúnaðarstörf bæði hér heima og erlendis í skjóli núverandi ríkisstjórnar. „Það er siðlaust að mínum mati að leiða einn mann fyrir dóm á meðan aðrir þeir sem hlut eiga að máli gera það gott, jafnvel í boði sjálfs ákæruvaldsins eða eru jafnvel ákæruvaldið sjálft," sagði Guðfríður Lilja á þingi í gær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×