Fótbolti

Guardiola vildi þjálfa Brasilíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guardiola náði mögnuðum árangri með Barcelona.
Guardiola náði mögnuðum árangri með Barcelona. Vísir/Getty
Pep Guardiola sóttist eftir því að gerast landsliðsþjálfari Brasilíu og stýra liðinu á heimavelli á HM 2014. Dani Alves, sem lék undir stjórn Guardiola hjá Barcelona, hélt þessu fram í viðtali við ESPN í kvöld.

Alves sagði að Guardiola vildi gera Brasilíu að heimsmeistara á nýjan leik en að forsvarsmenn brasilíska knattspyrnusambandsins hafi verið hræddir við að ráða útlending í starfið. Luiz Felipe Scolari var að lokum ráðinn.

„Pep sagði að hann væri með tilbúna áætlun fyrir brasilíska landsliðið sem hann ætlaði að gera að heimsmeistara,“ sagði Alves í viðtalinu. „En þeir vildu það ekki. Þeir voru ekki vissir um að Brasilía myndi samþykkja erlendan þjálfara.“

Guardiola náði ótrúlegum árangri sem knattspyrnustjóri Barcelona og vann alls fjórtán titla á fjórum tímabilum. Hann fór svo frá liðinu árið 2012 og var skipaður stjóri Bayern München ári síðar.

Alves sagði að Guardiola, sem er í dag tvöfaldur þýskur meistari, væri besti þjálfari heims. „Hann gerbylti knattspyrnunni og Barcelona. Við hefðum getað fengið hann í landsliðið.“

Brasilía tapaði sem kunnugt er fyrir verðandi heimsmeisturum Þýskalands í undanúrslitum keppninnar, 7-1. Scolari sagði af sér eftir að Brasilía tapaði bronsleiknum fyrir Hollandi, 3-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×