Fótbolti

Guardiola vildi fá Ter Stegen í sumar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ter Stegen er markvörður númer eitt hjá Barcelona.
Ter Stegen er markvörður númer eitt hjá Barcelona. vísir/getty
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segist hafa haft áhuga á Marc-André ter Stegen, markverði Barcelona, í sumar.

Guardiola fékk Claudio Bravo frá Barcelona rétt áður en félagaskiptaglugginn lokaði um þarsíðustu mánaðarmót. Hann var einnig með hinn markvörð Barcelona í sigtinu.

Á blaðamannafundi í gær taldi Guardiola upp nokkra leikmenn Barcelona sem hann sagðist ekki hafa haft samband við í sumar. Hann gaf það þó í skyn að Ter Stegen hafi verið hans fyrsti kostur til að leysa Joe Hart af hólmi hjá Man City.

„Ég talaði aldrei við Messi, Neymar, Luis Suárez, Sergio Busquets, Andrés Iniesta. Ég talaði ekki við neinn,“ sagði Guardiola.

„Hvað Ter Stegen varðar vissum við að hann vildi spila reglulega. Við höfðum samband. Hann var ekki ánægður með sína stöðu. Við þurftum að fá markvörð eins og Bravo eða Ter Stegen.“

Sjá einnig: Pique: Man City spilar eins og Barcelona

Bravo og Ter Stegen komu báðir til Barcelona sumarið 2014. Þeir skiptu með sér verkum næstu tvö tímabil; Bravo spilaði deildarleikina en Ter Stegen í spænsku bikarkeppninni og Meistaradeild Evrópu.

Hinn 24 ára Ter Stegen er nú orðinn aðalmarkvörður Barcelona en Þjóðverjinn lék áður með Borussia Mönchengladbach.

Ter Stegen og Bravo verða báðir í eldlínunni í kvöld þegar Barcelona tekur á móti Man City í C-riðli Meistaradeildarinnar.

Leikur Barcelona og Man City hefst klukkan 18:45 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×