Fótbolti

Guardiola snýr aftur til Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guardiola fagnar sigri Bayern á Porto í 8-liða úrslitunum.
Guardiola fagnar sigri Bayern á Porto í 8-liða úrslitunum. Vísir/Getty
Barcelona mætir Bayern München í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í næsta mánuði en dregið var í dag. Í hinum undanúrslitunum eigast við Juventus og Real Madrid.

Pep Guardiola, stjóri Bayern, snýr því aftur til uppeldisborgar sinnar, Barcelona, en þar vann hann þrettán titla sem knattspyrnustjóri. Þar af vann hann Meistaradeild Evrópu bæði 2009 og 2011.

Guardiola hefur nú á sínum sex árum sem þjálfari ávallt komist í undanúrslit Meistaradeildarinnar - fyrstu fjögur árin með Barcelona og nú tvívegis á jafn mörgum árum með Bayern.

Annar þjálfari snýr aftur á gamlar slóðir en það er Ítalinn Carlo Ancelotti, stjóri Real Madrid. Hann stýrði Juventus frá 1999 til 2001.

Drátturinn þýðir einnig að Barcelona og Real Madrid eiga nú möguleika á að mætast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu en það hefur aldrei gerst áður. Þessi lið eru nú að berjast um spænska meistaratitilinn, einu sinni sem oftar.

Undanúrslitin hefjast 5. og 6. maí og síðari leikirnir fara fram viku síðar. Úrslitaleikurinn fer svo fram á Ólympíuleikvanginum í Berlín þann 6. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×