Enski boltinn

Guardiola ákærður fyrir að styðja landa sína

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Pep Guardiola.
Pep Guardiola. vísir/getty
Enska knattspyrnusambandið hefur ákært Pep Guardiola fyrir að klæðast gulri slaufu á hliðarlínunni í leikjum Manchester City.

Guardiola klæðist borðanum, sem er áþekkur bleiku slaufunni nema gulur, til stuðnings stjórnmálamanna sem sitja í fangelsi vegna sjálfstæðisbaráttu Katalóníu en stjórinn er fæddur í Katalóníu.

Knattspyrnustjórum er óheimilt að klæðast pólitískum klæðnaði, hversu stórum eða smáum, á hliðarlínunni. Þeim er frjálst að sýna stuðning sinn við hvaða pólitísk mál sem þeir vilja hvar sem er annars staðar, bara ekki á hliðarlínunni á meðan leik stendur.

Guardiola klæddist gulu slaufunni í leik City og Wigan í ensku bikarkeppninni á mánudaginn þrátt fyrir að hafa fengið tvær formlegar viðvaranir frá knattspyrnusambandinu vegna málsins.

Í nóvember, þegar málið kom fyrst upp, sagði Guardiola að hann myndi bera slaufuna á meðan tveir lykilmenn í katalónísku sjálfstæðishreyfingunni sætu í fangelsi.

Spánverjinn hefur til lok dags mánudaginn 5. mars til þess að svara ákærunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×