Enski boltinn

Guardiola: Schweinsteiger var aldrei í góðu formi hjá mér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bastian Schweinsteiger.
Bastian Schweinsteiger. Vísir/Getty
Pep Guardiola, þjálfari Bayern München, hefur gefið stuðningsmönnum Manchester United ástæðu til að hafa smá áhyggjur af líkamlegu ásigkomulagi þýska miðjumannsins Bastian Schweinsteiger.

Hinn 31 árs gamli Bastian Schweinsteiger gerði þriggja ára samning við Manchester United í sumar eftir að enska úrvalsdeildarfélagið keypti hann á bilinu 10,6 til 14,4 milljónir punda frá Bayern München.

Bastian Schweinsteiger var búinn að vera hjá Bayern München í sextán ár eða síðan að hann var aðeins fjórtán ára gamall.  

„Ef hann mun er ekki vera að glíma við meiðsli þá er ég algjörlega sannfærður um að hann mun standa sig mjög vel hjá Manchester United. Þetta er toppleikamaður," er haft eftir Pep Guardiola í enskum fjölmiðlum í dag.  

„Til allrar óhamingju, þá var hann aldrei í góðu formi hjá mér undanfarin þrjú ár," bætti Guardiola við.

Schweinsteiger hefur verið að glíma við ökkla- og hnémeiðsli stóran hluta síns ferils og það var því vitað að Manchester United var að taka vissa áhættu með að kaupa hann nú þegar leikmaðurinn er kominn yfir þrítugt.

Schweinsteiger tók við fyrirliðastöðu þýska landsliðsins þegar Philipp Lahm hætti eftir HM í Brasilíu 2014 en Schweinsteiger hefur spilað 111 landsleiki fyrir Þýskaland frá árinu 2004.

Bastian Schweinsteiger varð þýskur meistari í áttunda sinn með Bayern síðasta vor en hann vann Meistaradeildina með félaginu 2013 og þýska bikarinn sjö sinnum.

Schweinsteiger spilaði færri og færri leiki með Bayern undanfarin þrjú tímabil. Hann spilaði 45 leiki í öllum keppnum 2012-13, 36 leiki tímabilið eftir og aðeins 28 leiki í öllum keppnum á síðustu leiktíð.

Bastian Schweinsteiger var með 5 mörk í 20 leikjum með Bayern München í þýsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og spilaði 6 leiki í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×