Innlent

Grunur um manndráp af gáleysi: Hinn látni var farþegi í skottinu

Bjarki Ármannsson skrifar
Biskupstungnabraut lokað, kvöldið sem slysið varð.
Biskupstungnabraut lokað, kvöldið sem slysið varð. Vísir/Óli Kr.
Hæstiréttur hefur fallist á kröfu Lögreglustjórans á Suðurlandi um að ökumaður bíls sem lenti út af Biskupstungnabraut þann 9. apríl síðastliðinn með þeim afleiðingum að einn farþegi bílsins lést verði gert að sæta farbanni fram á mitt sumar. Héraðsdómur Suðurlands hafði áður hafnað kröfunni.

Ökumaðurinn er af erlendu bergi brotinn en hefur búið og starfað á Íslandi í nokkra mánuði. Hann liggur undir rökstuddum grun um að hafa valdið mannsbana af gáleysi, sem getur varðar allt að sex ára fangelsisdóm.

Hinn látni var 23 ára Rúmeni. Í greinargerð lögreglu kemur fram að farþegar í bílnum hafi alls verið sex en sá sem lést var farþegi í farangursgeymslu bílsins. Þrír af hinum fjórum farþegunum eru af erlendu bergi brotnir og eru þeir allir farnir úr landi.

Slysið átti sér stað í grennd við Sogið.Mynd/Loftmyndir.is
Ekki von á álitsgerð um slysið fyrr en eftir um tvo mánuði

Farþeginn í farangursgeymslunni lést af áverkum sem hann hlaut er hann kastaðist úr geymslunni og lenti undir bílnum við það að bíllinn lenti út af veginum. Ökumaðurinn hefur viðurkennt að hann vissi af manninum í farangursgeymslunni. Hann var ekki undir áhrifum áfengis þegar slysið átti sér stað en segist hafa misst stjórn á bílnum í hálku.

Í greinargerð lögreglustjóra er gerð grein fyrir aðkomu sérfróðra aðila sem aðstoðað hafa við rannsóknina. Segir að þó málið sé í forgangi hjá lögreglu, sé álitsgerð þessara sérfræðinga ekki að vænta fyrr en eftir um tvo mánuði. Nær öruggt þyki að kalla þurfi ökumanninn þá aftur til skýrslutöku.

Sem fyrr segir féllst Héraðsdómur Suðurlands ekki á kröfu lögreglustjórans um farbann. Segir í úrskurði að ekkert hafi fram komið í málinu sem bendi til þess að maðurinn muni koma sér undan því að mæta fyrir dóm á Íslandi, komi til þess að ákæra verði gefin út á hendur honum.

Hæstiréttur taldi hins vegar skilyrðum til að banna manninum brottför af landinu fullnægt, meðal annars í ljósi þess að maðurinn eigi ekki fjölskyldu hérlendis og tímabundið starf hans sé það eina sem tengir hann við landið. Hann mun sæta farbanni til 24. júlí.


Tengdar fréttir

Hinn látni var frá Rúmeníu

Maðurinn sem lét lífið í bílslysi á Biskupstungnabraut undir Ingólfsfjalli í gærkvöldi var Rúmeni á þrítugsaldri.

Nafn mannsins sem lést

Maðurinn sem lést þegar fólksbifreið lenti út af Biskupstungnabraut skammt frá Alviðru í fyrrakvöld hét Alexandru Bejinariu, 23 ára Rúmeni.

Banaslys á Biskupstungnabraut

Karlmaður lést þegar bíll með sex manns valt út af Biskupstungnabraut undir Ingólfsfjalli austanverðu um klukkan hálf níu í gærkvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×