Erlent

Grunsamleg merki berast úr geimnum

Benedikt Bóas skrifar
Sjónaukar víða um heim gátu náð að staðsetja útvarpsblossa í stjörnuþoku sem er í þriggja milljarða ljósára fjarlægð.
Sjónaukar víða um heim gátu náð að staðsetja útvarpsblossa í stjörnuþoku sem er í þriggja milljarða ljósára fjarlægð. vísir/getty
Í fyrsta sinn hafa stjörnufræðingar staðsett uppruna útvarpsblossa – skammlífra en öflugra útvarpsmerkja – í stjörnuþoku. Þeir endast í aðeins nokkra þúsundustu hluta úr sekúndu og hafa valdið stjörnufræðingum heilabrotum í nokkra áratugi. Síðan 2007 hafa borist 18 slík merki en aðeins eitt hefur borist oftar en einu sinni.

„Með því að nota sjónauka sem staðsettir eru víða um heim vitum við að þessar sendingar koma frá stjörnuþoku sem er í þriggja milljarða ljósára fjarlægð frá jörðinni,“ segir Shami Chatterjee, stjörnufræðingur við Cornell-háskóla í samtali við AFP-fréttaveituna. Greint var frá tíðindunum á fundi stjarnfræðinga sem fram fer í Texas.

Áður hafði stjörnufræðinga skort sannanir fyrir því að merkin væru upprunnin utan Vetrarbrautarinnar. Stjörnu­þokan hefur innan við eitt prósent af massa vetrarbrautarinnar og þykir vísindamönnum það merkileg staðreynd. En þó að vísindamenn viti hvaðan merkin koma er enn eftir að greina frá því hvað þau eru.

„Það á enn eftir að vinna mikla vinnu. En að finna út hvaðan merkin koma er stórt skref í átt að lausn þessarar gátu,“ segir Victoria Kaspi eðlisfræðiprófessor en hún fer fyrir alþjóðlegu liði sem sér um rannsóknina.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×