Erlent

Grunaður um að hafa neytt dóttur sína til að gleypa hálft kíló af kókaíni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Dæmi um kókaínhylki.
Dæmi um kókaínhylki. Vísir/Getty
11 ára gömul stúlka frá borginni Cali í Kólumbíu er heppin að vera á lífi eftir að hún gleypti yfir 100 hylki af kókaíni. Talið er að faðir stúlkunnar hafi neytt hana til að gleypa hylkin.

Hann fór með dóttur sína á sjúkrahús á sunnudaginn eftir að hún hafði kvartað yfir magaverkjum. Móðirin hefur síðan dvalið með stúlkunni á spítalanum og leitar lögreglan nú að föðurnum þar sem hann er grunaður um að hafa látið dóttur sína gleypa kókaínið.

Í frétt Guardian segir að læknar hafi fjarlægt 104 hylki úr stúlkunni, eða um hálft kíló af kókaíni. Stúlkan er enn meðvitundarlaus en gæti þó útskrifast af sjúkrahúsi eftir um 10 daga.

Barnaverndaryfirvöld í Cali munu þá taka hana í sína umsjá á meðan lögreglan rannsakar málsatvik. Meðal annars á að kanna hvort að móðirin sé viðriðin málið.

Alþekkt er að burðardýr gleypi hylki með fíkniefnum og flytji efnin þannig á milli staða. Efnin losa þau síðan út eftir að hafa tekið hægðalosandi lyf. Stúlkan er yngsta burðardýr sem lögreglan í Cali hefur komist á snoðir um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×