Handbolti

Grótta vann langþráðan sigur | Stjarnan heldur í við Fram

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Allt annað er að sjá til Gróttu með Önnu innanborðs.
Allt annað er að sjá til Gróttu með Önnu innanborðs. vísir/vísir
Íslandsmeistararnir í Gróttu unnu fyrsta sigur sinn í tæpa tvo mánuði á heimavelli í dag gegn ÍBV en leiknum lauk með 25-20 sigri Seltirninga.

Fyrri leik liðanna lauk með níu marka sigri Eyjakvenna en Grótta hafði ekki unnið leik frá annarri umferð.

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir lék annan leik sinn í röð í Gróttutreyjunni og með hana innanborðs var allt annað að sjá Seltirninga.

Grótta leiddi 12-10 í hálfleik og vann að lokum fimm marka sigur en Lovísa Thompson var atkvæðamest með átta mörk og bætti Laufey Ásta Guðmundsdóttir við sjö mörkum.

Í liði ÍBV var það Sandra Erlingsdóttir sem var markahæst með sjö mörk en Ester Óskarsdóttir kom næst með sex.

Í Hafnarfirði sóttu Garðbæingar tvö stig til Hauka en leiknum lauk með sex marka sigri Stjörnunnar, 28-22.

Jafnræði var með liðunum framan af en eftir því sem leið á hálfleikinn náðu gestirnir úr Garðabænum betri tökum á leiknum.

Leiddu þær 16-12 í hálfleik en þær hleyptu forskotinu aldrei frá sér í seinni hálfleik og fögnuðu að lokum sannfærandi sigri.

Með sigrinum heldur Stjarnan í við topplið Fram en Haukar sitja áfram í þriðja sæti, fjórum stigum á eftir Fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×