Handbolti

Grótta með sigur á Stjörnunni í sveiflukenndum leik

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gunnar Andrésson þjálfar lið Gróttu.
Gunnar Andrésson þjálfar lið Gróttu. vísir/ernir
Grótta vann afar mikilvægan sigur á Stjörnunni í þrettándu umferð Olís-deildar karla, en með sigrinum komst Grótta aðeins í burtu frá botnbaráttunni, í bili að minnsta kosti.

Grótta byrjaði betur og hafði undirtökin, en þeir leiddu meðal annars 11-7 um miðjan hálfleikinn. Þá kom Ólafur Gústafsson inn á eftir að hafa verið meiddur undanfarnar vikur og það breytti sóknarleik Stjörnunnar.

Hægt og rólega komust gestirnir úr Garðabænum inn í leikinn og jöfnuðu metin í 12-12 með 5-1 kafla, en staðan var svo jöfn þegar liðin gengu til búningsherbergja, 13-13.

Stjörnumenn virtust ætla skilja heimamenn eftir, en hægt og rólega náðu Grótta að koma sér aftur inn í leikinn og komust yfir 24-23 þegar þrjár mínútur voru eftir eftir að hafa verið 20-23 undir.

Grótta skoraði einnig síðustu tvö mörkin og unnu því að lokum með þremur mörkum, 26-23. Grótta er með ellefu stig í sjöunda sæti, en Stjarnan er í næst neðsta sæti með níu stig.

Finnur Ingi Stefánsson var markahæstur hjá Gróttu með níu mörk, en Ari Magnús Þorgeirsson skoraði sex fyrir Stjörnuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×