Handbolti

Grosswallstadt í greiðslustöðvun | Fannar ekki fengið laun síðan í febrúar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fannar Friðgeirsson leikur með Grosswallstadt. Hér er hann í leik með Wetzlar árið 2013.
Fannar Friðgeirsson leikur með Grosswallstadt. Hér er hann í leik með Wetzlar árið 2013. Vísir/Getty
Þýska handknattleiksfélagið TV Grosswallstadt er komið í greiðslustöðvun og ljóst að félagið rambar á barmi gjaldþrots. Þetta var tilkynnt í dag.

Fannar Friðgeirsson er á mála hjá félaginu og er í hópi þeirra leikmanna sem hafa ekki fengið greidd laun hjá félaginu síðan í febrúar, samkvæmt því sem fram hefur komið fram í þýskum fjölmiðlum. Allar líkur eru á því að félagið þurfi að byrja upp á nýtt í C-deildinni en framtíð allra leikmanna liðsins er í óvissu.

Forráðamenn félagsins segja að þeir hafi verið neyddir til að fara fram á greiðslustöðvun eftir að félagið fékk ekki keppnisleyfi. Forráðamenn félagsins ætla þó að senda lið til keppni næsta haust og vinna sig upp aftur.

Félagið hefur verið í fjárhagsvandræðum síðastliðin ár en meðal annarra Íslendinga sem hafa leikið með liðinu síðastliðin ár má nefna Sverre Jakobsson og Rúnar Kárason. Liðið féll úr þýsku úrvalsdeildinni árið 2013 en hafnaði í sjötta sæti B-deildarinnar í vor.

Grosswallstadt var stofnað árið 1888 og er í hópi sigursælustu félagsliða Þýskalands. Liðið hefur sjö sinnum orðið Þýskalandsmeistari, síðast árið 1990. Þá hefur liðið unnið fjóra bikarmeistaratitla og fimm alþjóðlega titla þar að auki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×