Tónlist

Gróska í Hipphopp senunni

María Lilja Þrastardóttir skrifar

Mikil gróska hefur verið í íslensku hipphoppsenunni síðustu ár. Fréttablaðið tók saman hluta þeirra fjölmörgu banda sem hafa mótað og haft leiðandi áhrif á stefnuna, sem virðist vaxa og dafna ár frá ári.

Hipphopp ruddi sér fyrst til rúms á Íslandi á níunda áratug síðustu aldar. Það náði hins vegar ekki flugi fyrr en í byrjun þess tíunda.

Hipphopp ruddi sér fyrst til rúms á Íslandi á níunda áratug síðustu aldar. Það náði hins vegar ekki flugi fyrr en í byrjun þess tíunda. Að margra mati er tíundi áratugurinn einmitt blómaskeið íslensku hipphopp-senunnar. Skemmtistaðurinn var Tetriz, búðin var Jónas á milli.

Subterranean steig sín fyrstu skref. Róbert Aron Magnússon gekk undir nafninu Rampage og bræðurnir Eyvindarsynir voru sakleysið uppmálað. Quarashi-drengir skiptu út rokki fyrir rapp og urðu fljótlega á meðal þekktustu hljómsveita Íslandssögunnar. Team 13 voru agnarsmáir vandræðaunglingar sem seinna meir áttu eftir að setja spor sitt á íslenskt tónlistarlíf, meðal annars á sviði raf- og popptónlistar.

Forgotten Lores tóku einnig að myndast með pólitísku og sterku ádeilurappi og eftir aldamótin tóku við kyndlinum sigurvegarar Músíktilrauna, þá 110 Rottweilerhundar. Sesar A boðaði svo breytta tíma, rappað skyldi á íslensku. Dóri DNA grínaðist minna og rappaði meira um Mosó og aðra merka staði, ásamt félaga sínum Danna Deluxe í Bæjarins bestu.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar í heimi hipphoppsins á undanförnum árum og ljóst er að ekki er pláss á síðum Fréttablaðsins fyrir nema aðeins brot af þeim listamönnum sem mótað hafa og munu móta stefnuna. Að undanförnu virðist mikill vöxtur hafa færst í senuna og við tekur senn nýtt blómaskeið. Nadia gaf tóninn í laginu Passaðu þig þar sem hún sagði karllægum bransanum stríð á hendur. Gísli Pálmi, Emmsjé Gauti, Geimfarar, Lord Pusswhip, Shades of Reykjavik, Gervisykur og Kött grá Pé eru á meðal heitustu hipphopp-listamannanna í dag.

Sá síðastnefndi á eitt vinsælasta lag landsins um þessar mundir, Aheybaró sem er reggískotið og hrátt. Einnig tók hjarta margs hipphopp-unnandans kipp þegar Ragna, Cell 7, tilkynnti endurkomu sína, en hún hefur lítið sést síðan á gullaldarárum Subterranean.

Rottweiler minntu á sig af krafti og boða meira partí svo ljóst er að engin ein stefna er ríkjandi í dag og allt virðist í boði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×