Innlent

Grófasta aprílgabbið: Vildi ekki versla í Bónus og seldi sig

Þótt ótrúlegt sé, þá er myndin af Elínu Arnar, ritstýru Vikunnar.
Þótt ótrúlegt sé, þá er myndin af Elínu Arnar, ritstýru Vikunnar.
„Jú, við fórum alla leið. En ef við hugsum þetta þá er allt í lagi að hafa gaman annað slagið," segir Elín Arnar, ritstjóri Vikunnar, spurð hvort apríl-gabbið í blaðinu hafi ekki verið heldur gróft.

Vikan birti viðtal á forsíðu blaðsins við vændiskonuna Guðrúnu Ýr Ragnhildardóttur, sem skildi við manninn sinn, fór í megrun og byrjaði að selja sig. Guðrún Ýr sagði meðal annars í viðtalinu að hún hefði ekki getað hugsað sér að búa í blokkaríbúð og versla í lágvöruversluninni Bónus. Því hefði hún farið út í vændið.

Á forsíðu blaðsins var svo mynd af fallegri konu, sem lesendur héldu að væri vændiskonan. Í ljós kom að Guðrún Ýr var ekki til. Um var að ræða apríl-gabb og forsíðustúlkan var ritstýran sjálf; Elín Arnar.

„Það merkilegasta var að mamma og pabbi þekktu mig ekki einu sinni á myndinni," segir Elín um myndina en ritstýran er mikið förðuð á myndinni auk þess sem andlitið hennar er teygt og togað til í myndvinnsluforritum til þess að gera hana óþekkjanlega.

Spurð hvernig viðbrögðin hefðu verið við viðtalinu svarar Elín því til að engar kvartanir hefðu borist. Aftur á móti hefðu allir fjölmiðlar landsins hringt linnulaust í hana.

„Að lokum hætti ég að svara því mér leið svo illa yfir því að ljúga að þeim," segir Elín sem þurfti að spila með í gríninu.

Aðspurð hvort blaðið hefði verið gagnrýnt fyrir að gera grín að vændi með þessum hætti svarar Elín því til að hún hafi ekki orðið vör við það.

„Mér fannst þetta kannski frekar ádeila á efnishyggjuna sem Íslendingar eru dálítið uppteknir af þrátt fyrir allt, segir Elín.

Vikan hefur aldrei áður verið með apríl-gabb og minnstu munaði að svo yrði einnig í ár. Aftur á móti brást forsíðuviðtali þeirra daginn sem blaðið átti að fara í prentun, „þannig við ákváðum bara að nýta tækifærið og fara alla leið með þetta," segir Elín.

Hún hvetur fólk til þess að hafa samband ef það er óánægt með stríðnislega uppátækið. „Þetta gerir bara lífið skemmtilegra," segir Elín sem þvertekur þó fyrir það þegar hún er spurð hvort Vikan ætli sér að stela einkennisorðum Séð og Heyrt.

Fyrir utan forsíðuviðtalið, sem er afar frumlegt, þó um apríl-gabb sé að ræða, þá er fleira athyglisvert efni að finna í blaðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×