Körfubolti

Gríska fríkið með flautukörfu og Steph í stuði | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
NBA-meistarar Cleveland Cavaliers töpuðu, 106-94, á heimavelli fyrir Chicago Bulls í NBA-deildinni í körfubolta í nótt en þetta er aðeins þriðja tap Cleveland á heimavelli í 21 leik á tímabilinu.

Jimmy Butler, bakvörður Chicago, skoraði 20 stig fyrir gestina en tíu af þeim skoraði hann í röð í fjórða leikhluta sem lagði grunninn að þessum sterka sigri Chicago. LeBron James spilaði tæpur en skoraði samt 31 stig, tók átta fráköst og gaf sjö stoðsendingar.

Cleveland, sem er enn á toppnum í austurdeildinni, var án bæði Kevins Loves sem er veikur og Kyrie Irving sem er tognaður aftan í læri. Chicago Bulls er búið að vinna tvo leiki í röð og er í áttunda sæti austursins.

Steph Curry var í stuði í sigri Golden State á Portland, 125-117, á heimavelli í nótt en hann skoraði 35 stig og setti niður fimm þriggja stiga körfur. Kevin Durant var einnig sjóðandi heitur en hann skoraði 30 stig og varði þrjú sko.

Golden State er búið að vinna fjóra leiki í röð og 35 í heildina en tapa aðeins tveimur. Það er sem fyrr á toppnum í vesturdeildinni.

Russell Westbrook átti enn einn stórleikinn fyrir Oklahoma City Thunder í nótt er hann skoraði 33 stig, tók fimmtán fráköst og gaf átta stoðsendingar á móti Charlotte Hornets á útivelli en það dugði ekki til. Charlotte vann örugglega, 123-112.

Westbrook hitti aðeins úr tíu af 31 skoti sínu, þar af tveimur af tólf fyrir utan þriggja stiga línuna. OKC-liðið er í sjötta sæti vestursins en það er búið að tapa tveimur leikjum í röð.

Giannis Antetokounmpo eða gríska fríkið eins og hann er kallaður, leikmaður Milwaukee Bucks, var hetja sinna manna í nótt þegar hann skoraði flautukörfu og tryggði liðinu 105-104 sigur á New York Knicks á útivelli.

Þessi verðandi mótherji Íslands á EM í körfubolta næsta haust átti frábæran leik en hann skoraði 27 stig og tók þrettán fráköst.

Úrslit næturinnar:

Charlotte Hornets - OKC Thunder 123-112

Orlandi Magic - Atlanta Hawks 92-111

NY Knicks - Milwaukee Bucks 104-105

Cleveland Cavaliers - Chicago Bulls 94-106

LA Clippers - Memphis Grizzlies 115-106

Golden State Warriors - Portland Trail Blazers 125-117

Sacramento Kings - Miami Heat 102-107

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×