Körfubolti

Grindvíkingar settu nýtt stigamet í oddaleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Grindvíkingar fagna hér titlinum í fyrra en þeir geta orðið Íslandsmeistara þriðja árið í röð.
Grindvíkingar fagna hér titlinum í fyrra en þeir geta orðið Íslandsmeistara þriðja árið í röð. Vísir/Daníel
Grindvíkingar voru í miklu stuði í Röstinni í Grindavík í gær þegar liðið tryggði sér sæti í lokaúrslitum Dominos-deildar karla eftir 25 stiga sigur á Njarðvík í oddaleik í undanúrslitum, 120-95.

Grindavík setti með þessu nýtt stigamet í oddaleik en gamla metið var síðan 2005 þegar Snæfell skoraði 116 stig í oddaleik á móti KR í átta liða úrslitunum fyrir níu árum síðan.

Grindavíkurliðið var með frábæra skotnýtingu í leiknum (61 prósent) þar af hitti liðið í heild sinni úr 15 af 30 þriggja stiga skotum sínum (50 prósent).

Sex leikmenn Grindavíkur skoruðu ellefu stig eða meira í leiknum þar af voru fjórir þeirra með 17 stig eða meira. Allir sex leikmenn liðsins sem voru með 11 stig eða meira voru að auki með 3 stoðsendingar eða fleiri þar af fimm þeirra með fjórar stoðsendingar eða meira.

Bandaríkjamaðurinn Lewis Clinch Jr. átti svakalega flottan leik en hann skoraði 31 stig, gaf 10 stoðsendingar og klikkaði aðeins á 4 af 14 skotum sínum.

Grindvíkingar mæta KR í lokaúrslitunum og er fyrsti leikurinn í DHL-höll þeirra KR-inga á annan í páskum. Leikurinn hefst klukkan 19.15 og er í beinni á Stöð 2 Sport.



Flest stig í oddaleik í úrslitakeppni karla:

120 - Grindavík á móti Njarðvík í undanúrslitum 2014

116 - Snæfell á móti KR í átta liða úrslitum 2005

115 - Keflavík á móti ÍR í átta liða úrslitum 2003

112 - Grindavík á móti Keflavík í átta liða úrslitum 2000

109 - Grindavík á móti Tindastól í undanúrslitum 2003

107 - Keflavík á móti Tindastól í átta liða úrslitum 2010

105 - Snæfell á móti Keflavík í lokaúrslitum 2010

105 - KR á móti Keflavík í undanúrslitum 2011

101 - Keflavík á móti Grindavík í átta liða úrslitum 2004




Fleiri fréttir

Sjá meira


×