Körfubolti

Grindvíkingar í felum fram að móti?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er ekki hægt að sjá á heimasíðu KKÍ hvað Jón Axel Guðmundsson hefur gert í þremur fyrstu leikjum tímabilsins.
Það er ekki hægt að sjá á heimasíðu KKÍ hvað Jón Axel Guðmundsson hefur gert í þremur fyrstu leikjum tímabilsins. Vísir/Ernir
Grindvíkingar hafa þegar spilað þrjá leiki í Fyrirtækjabikar karla í körfubolta en engar upplýsingar eru samt til á heimasíðu KKÍ um frammistöðu leikmanna liðsins í þessum þremur leikjum.

Samkvæmt reglugerð Körfuknattleikssambands Íslands þá er það skylda félaganna að taka tölfræði á leikjum sinna liða í Fyrirtækjabikar karla og kvenna en sú regla hefur ekki dugað hingað til í leikjum Grindavíkurliðsins.

Grindvík hefur spilað tvo heimaleiki og einn útileik til þessa í keppninni og tölfræðin hefur ekki skilað sér á KKÍ-síðuna úr neinum þeirra. Það lítur út fyrir að Grindvíkingar ætli hreinlega að vera í felum fram að Íslandsmótinu.

Grindvíkingar bera sjálfir ábyrgð á því að taka tölfræðina í heimaleikjum sínum en það er ekki hægt að kenna þeim um að tölfræðin var heldur ekki tekin þegar þeir mættu út í KR. Þegar félög eru farin að sleppa leik eftir leik þá er þetta orðin spurning um hvort að sektirnar séu alltof lágar.

Það er hægt að sjá (eða ekki) heildartölfræði Grindavíkurliðsins í fyrstu þremur leikjum liðsins í Fyrirtækjabikarnum með því að smella hér.

Leikmenn Grindavíkurliðsins hafa aftur á móti ekki klikkað inn á vellinum því þeir hafa unnið alla þessa þrjá leiki með sannfærandi hætti. Grindavík vann 23 stiga sigur á Val (90-67), 26 stiga sigur á KR (88-62) og 10 stiga sigur á ÍR (85-75).

Lokaleikur Grindvíkinga í riðlinum er á móti KFÍ á Ísafirði eftir rúma viku en Grindvíkingar eru þegar búnir að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum keppninnar.

Grindavíkurkonur spila sinn fyrsta leik í kvöld þegar Breiðablik kemur í heimsókn í Röstina í Fyrirtækjabikar kvenna. Nú er að sjá hvort tölfræðin skili sér hjá stelpunum eða hvort þær séu líka í "felum" eins og karlarnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×