Íslenski boltinn

Grindavík steig stórt skref í átt að Pepsi-deildinni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Grindvíkingar eru á leið í Pepsi-deildina.
Grindvíkingar eru á leið í Pepsi-deildina. vísir/hanna
Grindavík er komið í góða stöðu í Inkasso-deild karla eftir 4-0 sigur á HK á heimavelli í dag, en liðið er á hraðbyr upp í Pepsi-deildina.

Grindvíkingar sitja í fyrsta sætinu með 37 stig - ellefu stigum betur en Keflavík sem er í þriðja sætinu, og er því í afar, afar góðri stöðu.

Varamaðurinn Andri Rúnar Bjarnason skoraði tvö mörk og þeir Alexander Veigar Þórarinsson og Magnús Björgvinsson skoruðu sitthvort markið.

Fram gerði Grindavík góðan greiða með því að vinna 1-0 sigur á Keflavík, en Ivan Bubalo skoraði eina mark leiksins á 59. mínútu.

Keflavík er nú komið í erfiða stöðu, en þeir eru ellefu stigum á eftir toppliði Grindavíkur og sjö stigum á eftir KA sem á leik til góða.

Fram er að öllum líkindum hólpið en þeir eru í áttunda sætinu með 22 stig, sex stigum frá Huginn sem er í fallsæti.

Haukamenn eru einnig búnir að bjarga sæti sínu í deildinni, en þeir unnu 1-0 sigur á Leikni Fáskrúðsfirði í mikilvægum leik fyrir bæði lið í dag.

Varamaðurinn Haukur Ásberg Hilmarsson skoraði eina mark leiksins stundarfjórðungi fyrr leikslok.

Haukarnir voru ekki í mikilli fallbaráttu, en eru búnir að gulltryggja sæti sitt með þessum sigri. Þeir eru í 6. sætinu með 23 stig, en Leiknir er á botninum með 12 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×