Körfubolti

Grindavík skiptir um Kana | Haywood lék sinn síðasta leik í kvöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vísir/Stefán
Kanadamaðurinn Joey Haywood lék sinn síðasta leik með Grindavík í Domino's deild karla í körfubolta í kvöld. Þetta staðfesti Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindavíkur, í samtali við Vísi eftir leik Grindavíkur og Þórs Þ. í Röstinni í kvöld.

„Joey er duglegur og flottur leikmaður, en við erum að fara í taktíska breytingu. Þetta var síðasti leikurinn hans, en við tjáðum honum fyrir viku að við ætluðum að skipta um leikmann. Hann var til í að vera með okkur í þessari viku á meðan umboðsmaðurinn hans er að finna lið fyrir hann,“ sagði Sverrir og bætti við:

„Við erum að leita okkur að hávaxnari leikmanni. Joey kom til okkar daginn áður en Siggi (Sigurður Gunnar Þorsteinsson) fékk samning hjá Solna Vikings og við ákváðum að prófa þetta.

„Okkur vantar hávaxnari leikmann, en það er leiðinlegt að senda jafn góðan leikmann heim. Það er sjaldan sem maður lendir í því, en í þessu tilfelli er það þannig. Við ætlum að fá stærri leikmann sem hjálpar okkur meira inni í teig,“ sagði Sverrir sem sagði jafnframt að ekkert væri komið á hreint hvaða leikmann Grindavík fengi til landsins.

„Það er ekkert komið á hreint, en ég er að skoða málin og þetta skýrist vonandi sem fyrst. Við verðum líklega Kanalausir á næstunni,“ sagði Sverrir að endingu.

Joey Haywood skoraði 17,5 stig, tók 3,5 fráköst og gaf 5,8 stoðsendingar að meðaltali í leikjunum fjórum sem hann lék með Grindavík í Domino's deildinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×