Erlent

Grimmilegt morð á 16 ára stúlku leiðir til mótmæla

Samúel Karl Ólason skrifar
Hin 16 ára gamla Lucia Perez.
Hin 16 ára gamla Lucia Perez. Mynd/Facebook
Grimmilegt morð á 16 ára gamalli stúlku í Argentínu hefur leitt til mótmæla. Undanfarna mánuði hafa konur í landinu margsinnis mótmælt grimmilegri meðferð sem þær hljóta.

Lucia Perez lést þann 8. október eftir að tveir menn komu með hana á sjúkrahús. Þeir sögðu hana hafa tekið of stóran skammt af fíkniefnum.

Læknar sjúkrahússins uppgötuvðu þó fljótt umtalsverða áverka á stúlkunni og var þeim ljóst að hún hafði ekki tekið of stóran skammt. Rannsókn var sett í gang.

Saksóknarar segja nú að mennirnir tveir hafi neitt Perez til að innbyrða mikið magn af kókaíni, nauðgað henni ítrekað og stungið aðskotahlut í endaþarm hennar, en sársaukinn var svo mikill að hún fór í hjartastopp og lést.

Saksóknarinn Maria Isabel Sanchez sagði málið vera það ógeðfeldasta sem hún hefði komist í tæri við á löngum ferli.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni hefur verið mikið um grimmilega ofbeldisglæpi gegn konum í Argentínu og hafa fjölmörg mótmæli þeirra vegna verið haldin. Í júní var boðað til mótmæla vegna morða á þremur konum og stúlkum.

Leikskólakennari var skorin á háls af fyrrverandi eiginmanni sínum, en hún var myrt fyrir framan hóp leikskólabarna. Þá var 14 ára stúlka barin til dauða af kærasta sínum, eftir að hún varð ólétt. Þar að auki var ung kona stungin til bana af fyrrverandi kærasta sínum á kaffihúsi um miðjan dag.

Að meðaltali deyr kona af völdum heimilisofbeldis á 36 tíma fresti í Argentínu.

50 samtök í Argentínu hafa nú kallað eftir því að konur mótmæli á götum úti í Argentínu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×