Innlent

Grimmar æfingar skiluðu fyrsta sætinu

Ólöf Skaftadóttir skrifar
hlaupagarpur Þorbergur er duglegur að æfa.
MYND/Úr einkasafni
hlaupagarpur Þorbergur er duglegur að æfa. MYND/Úr einkasafni
„Þetta var góð tilfinning. Ég stefndi á þetta – bæði að vinna og setja brautarmet. Þannig að það var virkilega gaman að koma í mark,“ segir Þorbergur Ingi Jónsson, sem kom fyrstur í mark í hinu árlega Laugavegshlaupi og setti nýtt met, fjórar klukkustundir, sjö mínútur og fjörutíu og sjö sekúndur.

„Ég bjó mig vel undir þetta og tók grimmar, langar æfingar. Ég æfði markvisst fyrir Laugaveginn í örugglega þrjá mánuði, en er annars alltaf að hlaupa,“ útskýrir Þorbergur.

„Ég æfi hlaup. Það er nú reyndar ekki hægt að lifa af því á Íslandi, þannig að þess á milli sinni ég starfi sem véla- og orkufræðingur hjá Marel,“ segir Þorbergur, léttur í bragði. „Svo hleyp ég þegar ég get.“

Hlaupið gekk ekki áfallalaust fyrir sig. „Ég datt einu sinni svolítið illa, en það var bara til að kveikja á mér. Ég skrapaði mig aðeins, á hné og olnboga, en ekkert sem háði mér í hlaupinu, en ég er dálítið aumur núna.“

Þorbergur segist ætla að taka aftur þátt.

„Ekki endilega á næsta ári samt. Ég á nóg eftir, en þegar maður tekur svona hlaup þá þarf maður að æfa sérstaklega fyrir þau og taka sér svo hvíld á eftir. Þannig að ég vel mér hlaup sem ég ætla að ná árangri í og einblíni á þau,“ segir Þorbergur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×