Erlent

Grikkland: Dregur úr fylgi Syriza

Atli Ísleifsson skrifar
Alexis Tsipras sagði af sér embætti forsætisráðherra Grikklands í síðustu viku.
Alexis Tsipras sagði af sér embætti forsætisráðherra Grikklands í síðustu viku. Vísir/AFP
Nokkuð hefur dregið úr fylgi Syriza, flokks Alexis Tsipras, fyrrverandi forsætisráðherra Grikklands, samkvæmt nýrri skoðanakönnun. Reiknað er með að þingkosningar fari fram í landinu í næsta mánuði.

Niðurstöður könnunar Prorata-stofnunarinnar, sem gerð var fyrir blaðið Efimerida Ton Syntakton, er sú fyrsta sem birt er frá því að stjórn Tsipras samþykkti samkomulag við lánardrotta sína um einkavæðingar og frekar niðurskurð í skiptum fyrir frekari lán.

Í frétt SVT kemur fram að vinstriflokkurinn Syriza mælist með 23 prósent fylgi en íhaldsmennirnir í Nýju lýðræði með 19,5 prósent. Í síðustu könnun mældist Syriza með 26 prósent, en Nýtt lýðræði fimmtán.

Nýi vinstriflokkurinn, Þjóðareining, mælist með 3,5 prósent fylgi en hann mynduðu hópur þeirra þingmanna Syriza sem sögðu sig úr flokknum í kjölfar samkomulagsins.

64 prósent aðspurðra segja að það hafi verið röng ákvörðun af hálfu Tsipras að segja af sér embætti til að greiða leiðina fyrir nýjum kosningum. Þá segja 68 prósent Grikkja að Grikkland eigi áfram að vera aðili að evrusamstarfinu.


Tengdar fréttir

Stofna flokk gegn skuldasamningi

Tuttugu og fimm óánægðir þingmenn SYRIZA-flokksins í Grikklandi hafa stofnað nýjan flokk, sem heitir Þjóðareining.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×