Fótbolti

Griezmann skaut Frökkum áfram sem mæta annað hvort Íslandi eða Englandi | Sjáðu mörkin

Antoine Griezmann fagnar seinna marki sínu.
Antoine Griezmann fagnar seinna marki sínu. Vísir/EPA
Antoine Griezmann sá um að skjóta Frakklandi í átta liða úrslit EM, en hann skoraði bæði mörk liðsins í 2-1 sigri á Írlandi. Frakkar mæta annað hvort Íslandi eða Englandi í átta liða úrslitum keppninnar.

Leikið var á Parc Olympique Lyonnais leikvanginum í Lyon og það voru ekki liðnar nema 59 sekúndur þegar Írar fengu víti. Paul Pogba féll þá Shane Long, en Robie Brady steig á punktinn og skoraði.

Frakkarnir byrjuðu strax að þjarma að marki Íra, en tókst ekki að koma boltanum í netið í fyrri hálfleik og Írar leiddu því í hálfleik 1-0.

Didier Deschamps tók N'Golo Kanté útaf í hálfleik og setti hinn sóknarþenkjandi Kingsley Coman inná. Frakkar ætluðu að blása til sóknar og það bar árangur.

Á 57. mínútu jafnaði Antoine Griezmann með frábærum skalla eftir laglega fyrirgjöf Bacary Sagna, en þetta var annað mark Griezmann í keppninni.

Griezmann var ekki hættur því fjórum mínútum síðar var hann aftur á ferðinni, en nú skoraði hann eftir undirbúning Arsenal-mannsins Oliver Giroud sem skallaði boltann fyrir fætur Griezmann.

Ekki skánaði ástandið fyrir Írland þegar Shane Duffy fékk að líta beint rautt spjald á 66. mínútu þegar hann klippti niður títtnefndar Griezmann sem var að sleppa einn í gegn.

Frakkar sigldu sigrinum svo í höfn án nokkura vandræða, en Írarnir ógnuðu lítið einum færri. Gestgjafarnir því komnir í átta liða úrslitin og mæta þar annað hvort okkur Íslendingum eða Englandi, en þau mætast á morgun.

Griezmann jafnar og kemur svo Frökkum yfir:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×