Enski boltinn

Griezmann segist vera ánægður í herbúðum Atletico

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Antoine Griezmann, framherji Atletico Madrid og franska landsliðsins, segist vera ánægður með lífið í höfuðborg Spánar en hann hefur verið ítrekað orðaður við Manchester United undanfarnar vikur.

Enskir fjölmiðlar hafa slegið því upp að hinn 26 árs gamli Griezmann sé efstur á óskalista Manchester United og hafa þeir velt fyrir sér hvort enska félagið nýti sér félaga Griezmann úr franska landsliðinu, Paul Pogba, við félagsskiptin.

Það hjálpaði ekki að Diego Simeone sagði fyrr í vikunni að hann ætti von á tilboðum í Griezmann og á endanum gæti hann ekki alveg útilokað það að sá franski yrði seldur í sumar.

Griezmann hefur aldrei talað um annað en að hann sé ánægður hjá Atletico og hann ítrekaði það í samtali við franska miðilinn Telefoot eftir leik Frakklands og Lúxemborg í gær.

„Framtíðaráætlanir? Ég velti mér bara upp úr því sem gerist inn á vellinum. Ég er ánægður í Madríd og það mun ekkert breytast á næstunni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×