Fótbolti

Griezmann: Ég á skilið að vera valinn bestur í Evrópu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Griezmann var markahæstur á EM í Frakklandi með sex mörk.
Griezmann var markahæstur á EM í Frakklandi með sex mörk. vísir/getty
Antoine Griezmann, leikmaður Atlético Madrid og franska landsliðsins, segir að hann verðskuldi titilinn besti leikmaður Evrópu.

Griezmann er einn þriggja sem koma til greina sem besti leikmaður Evrópu ásamt Real Madrid-mönnunum Cristiano Ronaldo og Gareth Bale.

Griezmann fylgdi frábæru tímabili með Atlético Madrid eftir með góðri frammistöðu á EM í Frakklandi, þar sem hann var markahæstur og valinn besti leikmaður mótsins.

„Ég er mjög glaður og stoltur að vera tilnefndur. Það sýnir að ég er á réttri leið. Ég verð að halda áfram á sömu braut, leggja hart að mér og gleðja fólk með spilamennsku minni,“ sagði Griezmann.

„Án þess að vera hrokafullur finnst mér ég verðskulda þessi verðlaun því ég átti frábært tímabil með félags- og landsliði. Kannski á ég þau skilið.“

Þrátt fyrir frábært tímabil hjá Griezmann þurfti hann bæði að sætta sig við að vera í tapliði í bæði úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu og EM í Frakklandi.

Byrjað var að veita þessi verðlaun árið 2011. Lionel Messi hefur hlotið þau tvisvar sinnum og þeir Andrés Iniesta, Franck Ribéry og Cristiano Ronaldo einu sinni hver.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×