Innlent

Gríðarlegt átak þarf í öldrunarhjúkrun

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Erlendar rannsóknir sýna að hlutfall fagmenntaðs starfsfólks skiptir máli varðandi gæði hjúkrunar og líðan einstaklinganna.
Erlendar rannsóknir sýna að hlutfall fagmenntaðs starfsfólks skiptir máli varðandi gæði hjúkrunar og líðan einstaklinganna. vísir/pjetur
Gríðarlegt átak þarf að gera í öldrunarhjúkrun vegna fjölgunar aldraðra. Þetta segir doktor Ingibjörg Hjaltadóttir, sérfræðingur í öldrunarhjúkrun.

„Það þarf að fjölga fagfólki inni á hjúkrunarheimilum, bæði hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum. Við þurfum einnig fleiri hjúkrunarfræðinga sem sérmennta sig í öldrunarhjúkrun. Viðfangsefnin eru orðin svo flókin á hjúkrunarheimilunum. Einstaklingar koma nú miklu veikari þangað inn en fyrir nokkrum árum. Allar erlendar rannsóknir sýna að hlutfall fagmenntaðs starfsfólks skiptir máli varðandi gæði hjúkrunar og líðan einstaklinganna. Öldruðum sem dvelja heima og þurfa hjúkrun fjölgar einnig,“ bendir Ingibjörg á.

Hefja á sérstakt diplómanám í öldrunarhjúkrun við Háskóla Íslands í haust. „Slíkt nám var í boði frá 2007 til 2009 og þá útskrifuðust 20. Það hefur greinilega aukið gæði þjónustunnar. Svo hafa nokkrir hjúkrunarfræðingar lokið meistaranámi í öldrunarhjúkrun,“ segir Ingibjörg.

Nú útskrifast um 150 hjúkrunarnemar á hverju ári úr almennu hjúkrunarnámi. Samkvæmt könnun Félags hjúkrunarfræðinga íhuga um 30 prósent hjúkrunarfræðinga að flytja af landi brott á næstu tveimur árum. 80 prósent á aldrinum 24 til 34 ára íhuga flutning en 35 prósent þeirra sem eru 45 ára og eldri. Um 900 hjúkrunarfræðingar mega hætta störfum sökum aldurs á næstu þremur árum.

Það er mat Ingibjargar að fjölga þurfi nemaplássum í hjúkrunarfræði til muna, ekki bara til þess að mæta fækkun vegna þeirra sem hætta heldur þurfi að fjölga í stéttinni. „Það er hins vegar ekki nóg að útskrifa nema, það þarf líka að halda í útskrifaða hjúkrunarfræðinga og leiðrétta launakjörin. Íslenskir hjúkrunarfræðingar eru eftirsóttur starfskraftur, ekki bara á spítölum heldur einnig í önnur störf. Þeir eru jafnframt eftirsóttir erlendis vegna góðrar menntunar.“

Von er á skýrslu frá Félagi hjúkrunarfræðinga um þær áherslur sem þarf að leggja í öldrunarhjúkrun. Skýrslan verður afhent velferðarráðuneytinu, að sögn Ingibjargar. „Skýrslan verður mikilvægt innlegg í umræðuna og gefur vísbendingar um það sem þarf að gera.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×