Íslenski boltinn

Grétar Sigfinnur: Gaman ef fólki verður smalað á leikinn úr dalnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Grétar í leik gegn ÍBV.
Grétar í leik gegn ÍBV. Vísir/Stefán
KR sækir ÍBV heim í seinni undanúrslitaleik Borgunarbikars karla klukkan 18:00 í kvöld, en sigurvegarinn mætir Keflavík í úrslitaleik á Laugardalsvelli.

Grétar Sigfinnur Sigurðarson, varnarmaður KR, segir andann í KR-liðinu góðan þrátt fyrir misjafnt gengi á tímabilinu.

„Andinn er góður. Það vilja allir spila og vinna undanúrslitaleik í bikar. Ef við erum samstilltir og mætum með rétt hugarfar til leiks, þá standast okkur fá lið snúning,“ sagði Grétar, en KR hefur gengið vel gegn ÍBV á undanförnum árum.

Vesturbæjarliðið hefur slegið Eyjamenn út úr bikarkeppninni þrisvar á síðustu fjórum árum, en Grétar býst við erfiðum leik í kvöld gegn ÍBV-liði sem hefur verið á uppleið á undanförnum vikum.

„Þeir eru sterkari en þegar við mættum þeim síðast í deildinni. Þeir eru búnir að vinna nokkra leiki í röð, standa sig vel og það er greinilega kominn góður andi í hópinn.

„Eins og venjulega býst maður við mikilli baráttu hjá ÍBV. Þeir eru á heimavelli, með áhorfendur á bak við sig og það er alltaf einhver stemmning í kringum liðið.

„Maður býst alltaf við þeim dýrvitlausum og við þurfum að vinna baráttuna í leiknum,“ sagði Grétar sem fær það erfiða verkefni í kvöld að eiga við Jonathan Glenn, markahæsta leikmann Pepsi-deildarinnar.

„Við áttumst við í síðasta leik og hann er öskufljótur. Maður þarf að lesa leikinn vel og hafa sérstaklega góðar gætur á honum. Glenn er góður leikmaður,“ sagði miðvörðurinn sterki sem vonast eftir góðri stemmningu á leiknum í kvöld, enda er stutt í Þjóðhátíð.

„Það gerir þetta enn skemmtilegra. Þetta er byrjunin á Þjóðhátíðinni og það væri gaman ef forráðamenn ÍBV myndu smala fólkinu úr Dalnum yfir á leikinn til að skapa góða stemmningu,“ sagði Grétar að lokum.


Tengdar fréttir

Verða vonandi tólfti leikmaður liðsins

KR hefur hent ÍBV úr bikarnum þrisvar sinnum á síðustu fjórum árum. Nú mætast liðin á ný í Eyjum. Matt Garner segir bikarinn hafa bjargað tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×