Fótbolti

Grétar Rafn ráðinn til C-deildarliðs á Englandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Grétar Rafn í leik með Bolton árið 2011.
Grétar Rafn í leik með Bolton árið 2011. vísir/getty
Grétar Rafn Steinsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur verið ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá enska C-deildarliðinu Fleetwood Town.

Þetta kemur fram á vef hollenska úrvalsdeildarliðsins AZ Alkmaar þar sem Grétar Rafn hefur verið í starfsnámi undanfarna mánuði eftir að ljúka námi við knattspyrnustjórnunarskóla Johans Cruyffs.

Grétar Rafn lagði skóna á hilluna árið 2013 en hann lék á atvinnumannaferli sínum með Young Boys í Sviss, AZ Alkmaar í Hollandi, Bolton í ensku úrvalsdeildinni og Kayserispor í Tyrklandi.

Fleetwood Town hefur verið upp um sex deildir á síðustu tíu árum, en það komst upp í C-deildina með sigri á Burton Albion í umspilsleik síðasta vor.

„Ég hef notið mín í Alkmaar undanfarna mánuði en í desember hafði Fleetwood Town samband. Þetta er tækifæri sem ég vil stökkva á og tel þetta vera rétt skref á mínum ferli,“ segir Grétar Rafn á vef AZ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×