Lífið

Greta í vandræðum á fyrstu æfingu í Globen

Stefán Árni Pálsson skrifar
Fyrsta æfing Gretu Salóme fór fram á stóra sviðinu í keppnishöllinni Globen í Stokkhólmi í dag. Var það almenn skoðun áhorfenda, sem fylgdust með æfingunni á skjám í keppnishöllinni, að byrjunarörðugleikar hefðu verið á íslenska atriðinu.

Greta tók þrjú rennsli. Fyrsta og annað gengu ekki vel en Greta náði sér betur á strik í því þriðja. Orðrómur var uppi um að Gretu-teymið ætlaði að nýta nýja tækni á sviðinu í Globen. Svo reyndist ekki vera og er sviðsetningin svipuð atriðinu sem landsmenn sáu í Söngvakeppninni hér heima.

Áhorfendur sögðu myndvinnslu hjá sænska sjónvarpinu geta verið betri í íslenska atriðinu. Einn blaðamaður í höllinni orðaði það þannig að víð skot eyðilegðu eiginlega alveg heildarútlit atriðsins.

Engar myndatökur voru leyfðar á æfingunni í dag en sem fyrr segir fylgdust gestir með því sem fram fór á skjám í keppnishöllinni. Íslenski hópurinn kom til Svíþjóðar í dag en Greta stígur á svið á þriðjudaginn. Hún er númer sextán í röðinni.

Hér að neðan má sjá smá brot frá æfingunni í dag










Fleiri fréttir

Sjá meira


×