Sport

Grét inn í klefa vegna andláts vinar síns en innsiglaði svo sigurinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Oscar Taveraz til vinstri lét lífið í nótt, en góðvinur hans Juan Perez fagnaði sigri til heiðurs honum.
Oscar Taveraz til vinstri lét lífið í nótt, en góðvinur hans Juan Perez fagnaði sigri til heiðurs honum. vísir/getty
Bandaríska MLB-deildin í hafnabolta missti einn sinn efnilegasta leikmann í nótt þegar Oscar Taveras sem spilar með St. Louis Cardinals lést í bílslysi í heimalandi sínu Dominíska lýðveldinu.

Þegar fréttirnar bárust í nótt var leikur fimm í lokaúrslitum MLB-deildarinnar í gangi, en þar eigast við Kansas City Royals og San Francisco Giants.

Leikmenn hópuðust í gryfjuna þar sem sjónvarpsfréttafólkið hafði aðstöðu til að fá frekari fregnir af þessum hæfileikaríka pilti, en leikurinn hélt þó áfram.

Juan Perez, leikmaður Giants, var góðvinur Tavarez, og kom einn þjálfara liðsins að honum grátandi inn í klefa eftir fimmtu lotu. Samherji hans fylgdi í kjölfarið og sagði Perez að hætta skoða símann sinn og fletta upp fleiri fréttum af andláti Tavarez.

Perez henti símanum frá sér og hélt leik áfram. Í tilfinningalegu uppnámi mætti hann á plötuna til að slá í áttundu lotu og innsiglaði 5-0 sigur sinna manna með höggi sem skilaði tveimur stigum.

Perez var bugaður maður eftir leik þegar hann ræddi við blaðamenn. „Ég reyndi bara að gleyma þessu á meðan ég var að slá. Þetta er svo ótrúlegt. Þessi ungi maður var hérna fyrir tveimur vikum og nú er hann látinn eftir bílslys. Þetta er svo sorlegt að ég trúi þessu varla,“ sagði Juan Perez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×