Skoðun

Grensásdeild – brú út í lífið

Þorgerður Valdimarsdóttir skrifar

Grensásdeild fagnar 40 ára afmæli sínu um þessar mundir. Eins og mörgum er kunnugt fer þar fram endurhæfing þeirra sem glíma við margvíslegar afleiðingar slysa eða langvinnra sjúkdóma, s.s. heila- og mænuskaða, afleiðingar heilaáfalla og miklu fleira.

Við þessar aðstæður eru fyrir hendi ýmis úrræði í samfélaginu. Lög um almannatryggingar, félagsþjónustu sveitarfélaga og félagslega aðstoð eiga að tryggja að allir njóti lágmarksframfærslu þrátt fyrir að vera óvinnufærir vegna veikinda eða slysa. Alvarleg og langvinn veikindi, sem í sumum tilfellum leiða til fötlunar, hafa óhjákvæmilega mikil áhrif á líf þess sem fyrir þeim verður.

Fjölskylda hins veika verður einnig fyrir áfalli. Í sumum tilfellum þarf fólk að hætta að vinna eða skipta alveg um starfsvettvang. Margir þurfa að huga að breytingum á húsnæði eða flytja í annað húsnæði sem hentar betur. Í stöku tilfellum þarf fólk jafnvel að taka sig upp og flytja utan af landi til þess að geta betur tekist á við aðstæður sínar.

Síðast en ekki síst þarf fólk að aðlagast nýjum aðstæðum og breyttum hlutverkum innan fjölskyldunnar. Eftir útskrift af Grensásdeild þarf fólk því að aðlagast breyttum kringumstæðum og reiða sig á þjónustu ýmissa aðila, s.s. heilsugæslu, félagsþjónustunnar og fleiri aðila, t.d. Öryrkjabandalagsins og Sjálfsbjargar, svo fátt eitt sé nefnt. Það er ákaflega mikilvægt að aðilar sem koma að málum einstaklinga í endurhæfingu vinni saman með heildarsýn að leiðarljósi þar sem hagsmunir sjúklingsins og fjölskyldu hans eru í fyrirrúmi. Þannig næst best markmið endurhæfingar um að fólk nái sem bestri heilsu og færni í kjölfar slysa eða sjúkdóma og fái færi á að vera virkir þjóðfélagsþegnar sér og öðrum til gæfu og hagsbóta.




Skoðun

Sjá meira


×